TáknVeður á Keflavíkurflugvelli       2°C      4 m/s

Öryggisleit og reglur

Eftir að farþegar hafa innritað sig fara þeir í gegnum öryggisleit til að komast inná brottfarasvæði. Besta leiðin til þess að sú leit gangi fljótt og örugglega fyrir sig er að vera viss um að vera ekki með neina bannaða hluti meðferðis í handfarangri.

Hvernig get ég flýtt fyrir öryggisleit?

Vertu tilbúin(n) að sýna öryggisvörðum ferðaskjöl/brottfararspjald og/eða skilríki/vegabréf til skoðunar.

Vertu tilbúin(n) að setja handfarangur í plastbakka við færibandið fyrir framan gegnumlýsingarvél séu þeir fyrir hendi.

Vertu búin(n) að:

  • setja snyrtivörur, ilmvötn og annan vökva (undir 100 ml hver eining) í glæra plastpoka og hafðu þá á stað sem þú ert fljót(ur) að finna því pokana þarf að skima sérstaklega.
  • taka fartölvu og önnur stærri rafmagnstæki úr tösku
  • fara úr yfirhöfn og jakka, taka af þér belti og tæma vasa.
  • Þú gætir verið beðin(n) um að fara úr skónum og láta skima þá.

Hvað gerist ef bannaðir hlutir finnast í handfarangri?

Ef bannaðir hlutir (t.d. oddhvassir hlutir, vökvi í stærri umbúðum en 100 ml eða fleiri en 10 slíkar) finnast við öryggisleit fær farþegi ekki að fara með þá inn fyrir öryggishlið.
Þegar farþegi er kominn í öryggisleit er of seint að koma bönnuðum hlutum fyrir í áður innrituðum farangri. Aðstaða til að geyma bannaða hluti er ekki fyrir hendi í flugstöðvum á Íslandi.

Get ég keypt vökva á brottfararsvæði Flugstöðvarinnar?

Farþegar geta eftir sem áður keypt allan vökva og aðrar vörur innan biðsvæðis flugstöðva Evrópska efnahagssvæðisins, en vörur sem seldar eru á því svæði hafa sætt sérstakri skoðun.
Þarf að innsigla vökva sem keyptur er á brottfararsvæði Flugstöðvarinnar?
Ef flogið er beint á áfangastað frá Íslandi má vera með allan vökva í handfarangri sem keyptur er á biðsvæðinu. Ef farið er í tengiflug skoðið eftirfarandi reglur vandlega:

  • Flug frá Íslandi til ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins með tengiflugi.

Vökvi sem keyptur er í verslun eftir að farið er í gegnum flugverndarskoðun, eða um borð í flugvél, skal geymdur í poka sem innsiglaður er í versluninni þar til á áfangastað er komið.400

Við öryggisskoðun í því landi sem tengiflug á sér stað í verður að framvísa kvittun sem staðfestir innihald pokans og að keypt hafi verið samadægurs sé þess óskað.

Ef farþegi tekur við innrituðum farangri sínum áður en haldið er áfram í tengiflugi, eða farangur hefur ekki verið innritaður alla leið, er vökvanum best fyrir komið í innritunarfarangri fyrir næsta flug.

  • Flug frá Íslandi til Norður-Ameríku (Bandaríkjanna og Kanada) með tengiflugi.

Vökva sem keyptur er í verslun eftir að farið er í gegnum öryggisskoðun, eða um borð í flugvél, er skylt að setja í innritaðan farangur áður en haldið er áfram í tengiflug.
Tækifæri til þess gefst eftir að farþegar hafa farið í gegnum tollskoðun við komuna í flugstöð í Norður-Ameríku (Bandaríkjunum og Kanada).

  • Flug til Íslands frá Norður-Ameríku (Bandaríkjunum og Kanada) og öðrum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Vökva sem keyptur er áður en farþegi innritar sig í flug skal koma fyrir í innritunarfarangri.

Ekki er heimilt að fara með vökva í handfarangri sem keyptur er í verslunum eftir að farið er í gegnum öryggisskoðun í Norður-Ameríku (Bandaríkjunum og Kanada) og öðrum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins inn í flugstöð á Íslandi jafnvel þótt hann sé í innsigluðum umbúðum.
Heimilt er að fara með vökva sem keyptur er um borð í flugvél skráðri í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins inn í flugstöð á Íslandi ef varan er í innsigluðum poka. Farþegi verður einnig að geta framvísað kvittun sem staðfestir innihald pokans og að keypt hafi verið samdægurs sé þess óskað við öryggiseftirlit.

Athugið að þegar vökvi hefur verið settur í innsiglaða poka af viðkomandi verslun má ekki rjúfa innsiglið á meðan farþegi er staddur í flugstöð eða á ferð í flugvél. Ef farþegi sætir öryggisskoðun áður en komið er út úr flugstöð og innsigli pokans hefur verið rofið er farþega ekki heimilt að fara með vökvann í gegnum öryggiseftirlit.

Hvað má ekki ferðast með?
Sprengiefni, eldfimar gastegundir, eldfima vökva, tærandi efni, eitur og önnur hættuleg efni, geislavirk efni, eyðandi efni, segulmagnaða hluti og svæfingarefni.

Sjá tæmandi lista yfir hluti sem eru bannaðir: http://ec.europa.eu/transport/modes/air/security/doc/info_travellers_restricted_art.pdf

Bannaðir hlutir

Takmörkun á vökva