TáknVeður á Keflavíkurflugvelli       7°C      7 m/s

Innflutningstakmarkanir

Reglur um tollfríðindi ferðamanna veita hvorki undanþágu frá sérstöku innflutningsskilyrðum né innflutningsbanni sem ýmsar vörutegundir eru háðar samkvæmt lögum, reglugerðum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.

Dæmi um vörutegundir sem eru háðar sértökum innflutningsskilyrðum:

Símar og fjarskiptatæki

Innflutningur þessara vörutegunda er almennt háður leyfi Fjarskiptaeftirlits ríkisins, t.d. þráðlausra sem línutengdra síma, símsvara talstöðva og fjarstýrðra leikfanga.
Þó er ekki áskilið innflutningsleyfi vegna GSM farsíma sem auðkenndir eru með CE-merkingu (notendabúnaður með viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu), leyfi er heldur ekki áskilið hafi ferðamaður meðferðis einn GSM farsíma sem ekki er með CE-merkingu.

Veiðibúnaður

Það er heimilt að hafa meðferðis veiðitæki, veiðibúnað og reiðfatnað, sem notaður hefur verið erlendis, enda hafi sótthreinsun farið fram áður en varningurinn er fluttur inn. Liggi ekki fyrir vottorð erlendis yfirvalds um sótthreinsun, fer hún fram hérlendis á kostnað viðkomandi. Vinsamlega setjið ykkur í samband við KEF Parking v. sótthreinsunar: kefparking@kefparking.is eða í síma 425 6400.

Notuð reiðtygi

Bannað er að flytja til landsins notuð reiðtygi, þ.m.t. hnakka, beisli, múla og píska úr leðri.

Skotvopn,skotfæri o.þ.h.

Að svo miklu leyti sem innflutningur slíkra vara er heimill, er hann háður leyfi lögreglustjóra.
Handhafi evrópsks skotvopnaleyfis, sem gefið er út hérlendis, getur þó án sérstaks leyfis lögreglustjóra flutt þau vopn sem tilgreind eru í leyfinu úr landi og inn í það aftur, ef dvölin erlendis er ekki lengri en þrír mánuðir.

Lifandi dýr

Það er skilyrði fyrir innflutningi lifandi dýra að leyfi landbúnaðarráðuneytisins liggi fyrir, auk þess sem fara þarf að fyrirmælum um einangrun.
Ef uppvíst verður um innflutning dýra i heimildarleysi ber að lóga þeim.

Lyf

Heimilt er að hafa meðferðis lyf til eigin nota í magni sem miðast við mest 100 daga notkun viðkomandi, enda sé ljóst hvert það magn sé.
Karlkynshormónalyf af flokki anabólískra stera og hliðstæðra efna og peptíð hormón og hliðstæð efni (sbr. liði c og f í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar um lyf sem bönnuð eru í íþróttum) má þó einungis hafa meðferðis í magni sem miðast við mest 30 daga notkun. Tollverðir geta áskilið að viðkomandi ferðamaður færi fullnægjandi sönnur á að honum sé nauðsyn á töku ofangreinda lyfja í því magni sem tilgreint er, t.d. með læknisvottorði.

Blóm og aðrar plöntur

Innflutningur blóma og annarra plantna er almennt háður því að þeim fylgir heilbrigðisvottorð frá opinberum aðila sem hefur eftirlit með plöntusjúkdómum í ræktunarlandinu, auk þess sem leyfi Rannsóknarstofnunar landsbúnaðarins er áskilið. Þó er ferðamönnum heimilt að hafa meðferðis vönd með afskornum blómum og greinum (allt að 25 plöntum), blómlauka og rótar-og stöngulhýði frá Evrópu í órofnum verslunarumbúðum (allt að 2 kg) og einstakar pottaplöntur frá Evrópu (allt að 3 stk.).

Dæmi um vörutegundir sem innflutningsbann er á:

  • Ávana- og fíkniefni
  • Fínkorna neftóbak og munntóbak
  • Ósoðnar kjötvörur
  • Ýmis vopn

Matvörur

Heimilt getur verið að flytja inn kjötvörur ef þær eru soðnar eða niðursoðnar. Reyking, söltun eða þurrkun, án suðu er ófullnægjandi.
Óheimilt er að t.d. að flytja inn salami og hvers konar reyktar ósoðnar pylsur, hamborgarahryggi og fugla. Sama gildir um ósoðna mjólk og ósoðin egg.
Mikilvægt er að umbúðir utan um matvörur séu með innihaldslýsingu.

Vopn

Óheimilt er að flytja inn hnífa með lengra blaði en 12 cm, fjaðrahnífa, kasthnífa, höggvopn, lásboga, hnúajárn og handjárn. Að svo miklu leyti sem innflutningur vopna er leyfður, þarf að liggja fyrir innflutningsleyfi lögreglu, svo sem t.d. hvað varðar skotvopn og skotfæri.

Ef ferðamaður telur að eitthvað sem hann hefur meðferðis kunni að vera háð sérstökum innflutningsskilyrðum eða ekki leyfi í innflutningi, ætti hann að gefa sig fram við tollgæslu og framvísa varningnum að eigin frumkvæði.