TáknVeður á Keflavíkurflugvelli       7°C      7 m/s

Tollafgreiðsla

Ferðamenn sem koma til landsins frá útlöndum eiga að eigin frumkvæði að skýra tollgæslunni frá og framvísa tollskyldum varningi sem þeir hafa meðferðis svo og þeim varningi sem háður er innflutningsskilyrðum eða innflutningsbanni. Ferðamenn þurfa hins vegar ekki að gera grein fyrir öðrum varningi sem þeir hafa meðferðis nema þess sé sérstaklega óskað.
Ef svonefnd rauð og græn tollhlið eru þar sem tollafgreiðsla ferðamanna fer fram, er ætlast til að þeir velji sér hlið og gefi með því til kynna hvort þeir hafi meðferðis varning sem þarf að gera sérstaklega grein fyrir eða ekki.

Rauð tollhlið
Rauð tollhlið eru fyrir þá sem hafa meðferðis:

  • Tollskyldan varning eða
  • Varning sem háður er innflutningsskilyrðum eða innflutningsbanni

Græn tollhlið

  • Græn tollhlið eru hins vegar fyrir þá sem eingöngu hafa tollfrjálsan farangur meðferðis og engan varning sem er háður innflutningstakmörkunum.

Ef ferðamaður er i vafa um hvað tollfríðindum hann á rétt á eða hvort tiltekinn hlutur sem hann hefur meðferðis sé háður sérstökum innflutningsmörkunum er ráðlagt að hann velji rautt tollhlið.

Tollvörður getur ávallt óskað eftir að skoða farangur ferðamanns, jafnvel á grænu tollhliði; það gildir og um farangur ferðamanna á afgreiðslustöðum þar sem ekki eru notuð rauð og græn tollhlið.
Ferðamanni ber að veita nauðsynlega aðstoð vegna tollskoðunar, t.d. opna töskur og umbúðir ef nauðsynlegt reynist og gefa upplýsingar um farangurinn sem um er beðið. Komi við tollskoðun fram varningur sem ekki er greint frá eins og fyrir er mælt hér að framan, skoðast hann ólöglega innfluttur. Er heimilt að gera slíkan varning upptækan til ríkissjóðs auk þess sem viðkomandi kann að þurfa að sæta refsingu lögum samkvæmt.