TáknVeður á Keflavíkurflugvelli       2°C      4 m/s

Saga og menning

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur var gerður af Bandaríkjaher í síðari heimsstyrjöld og var opnaður 23. mars 1943. Hann var mikilvægur áningarstaður herflugvéla á leið yfir Norður-Atlantshaf í styrjöldinni en komst í eigu Íslendinga árið 1946. Að styrjöldinni lokinni lék flugvöllurinn mikilvægt hlutverk í uppbyggingu almannaflugs milli Evrópu og Ameríku auk flugs Bandaríkjahers vegna hersetu í Evrópu. Stóð Bandaríkjastjórn straum af kostnaði við flugvallarreksturinn og réð verktaka til starfans. Flugvélar í þá daga höfðu ekki nægt flugþol til að ná yfir hafið í einum áfanga og millilentu m.a. á Keflavíkurflugvelli. Mikilvægi flugvallarins í alþjóðaflugi minnkaði þó með nýjum flugvélagerðum.

Vorið 1951 gerðu Ísland og Bandaríkin með sér varnarsamning og hafði bandarískt varnarliðið flugbækistöð á Keflavíkurflugvelli til ársins 2006. Bandaríkjastjórn stóð sem fyrr að mestu straum af kostnaði við flugvallareksturinn en Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar annaðist stjórn borgaralegrar flugstarfsemi í samræmi við samþykktir Alþjóðaflugmálastjórnarinnar. Utanríkisráðherra fór með framkvæmd allra mála er vörðuðu varnarliðið og Keflavíkurflugvöll. Uppbygging varnarstöðvarinnar var að mestu við flughlaðið og flugstöðina og komu snemma fram hugmyndir um að reisa nýja flugstöð til að aðskilja borgaralegt flug og hernaðarumsvif. Ekkert varð þó af framkvæmdum fyrr en á öndverðum níunda áratug síðustu aldar.

Á upphafsárum varnarliðsins var sú tilhögun í flugturninum á Keflavíkurflugvelli að hermenn önnuðust stjórn herflugvéla og íslenskir flugumferðarstjórar þeirra borgaralegu. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar tók við stjórn allra loftfara á flugvellinum árið 1955 og hefur annast aðflugsstjórn fyrir Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll frá árinu 1978.

Tvö íslensk flugfélög stunduðu millilandaflug. Loftleiðir hf. flugu til Evrópu og Bandaríkjanna en Flugfélag Íslands hf. einskorðaði starfsemi sína við flug til meginlands Evrópu og Bretlands. Þegar flugvélar þessara félaga stækkuðu og þotuöld hófst á öndverðum sjöunda áratugnum fluttu bæði félögin starfsemi sína til Keflavíkur en innanlandsflug var áfram í Reykjavík. Flugfélögin tvö sameinuðust í Flugleiðir hf. árið 1973. Flutningur íslenska millilandaflugsins markaði kaflaskil í starfsemi Keflavíkurflugvallar og jók umferð um flugvöllinn umtalsvert. Árið 1958 fóru tæplega 44 þúsund farþega og rúmlega 1.200 lestir af vörum um Keflavíkurflugvöll en árið 2007 voru farþegar 2,2 milljónir og vöruflutningar um 60.000 lestir.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Flugstöð Leifs Eiríkssonar var tekin í notkun í apríl 1987 til aðskilnaðar almannaflugs og starfsemi varnarliðsins. Bandaríkjamenn og Íslendingar skiptu með sér kostnaði við verkið og greiddi Bandaríkjastjórn um 2/3 heildarkostnaðar. Rekstur flugstöðvarinnar var á hendi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar til ársins 1998 er ríkisstofnunin Flugstöð Leifs Eiríkssonar var sett á fót til að annast flugstöðvarreksturinn. Ráðgefandi stjórn flugstöðvarinnar, sem skipuð var í ágúst 1999 til að vinna að tillögum um framtíðartilhögun á rekstrinum, lagði til grundvallarbreytingar. Í kjölfarið voru ríkisstofnanirnar Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli og Flugstöð Leifs Eiríkssonar sameinaðar í eitt hlutafélag í eigu ríkisins. Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. var stofnað með lögum frá Alþingi í maí 2000 og tók við öllum rekstri flugstöðvarinnar, fasteign og skuldbindingum 1. október sama ár. Félaginu var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007.

Flugstöðin stækkaði um 16.000 fermetra þegar suðurbygging hennar var tekin í notkun 25. mars 2001, sama dag og Schengen vegabréfasamstarfið gekk í gildi.  Framkvæmdir við stækkun og breytingar í norðurbyggingu flugstöðvarinnar hófust í október 2005 og lauk vorið 2008. Samanlagður gólfflötur var þá um 56.000 fermetrar. Norðurbyggingin, sem upphaflega var um 22.000 fermetrar, hafði þá verið stækkuð í 39.000 fermetrar sem jafngildir allri suðurbyggingu flugstöðvarinnar.

Fríhöfnin

Á árunum 1951-1957 var mikil aukning á flugi um Keflavíkurflugvöll, einkum þó árið 1956. 23.maí 1958 samþykkti Alþingi lög sem heimiluðu ríkisstjórnina að selja tollfrjálsar vörur á borð við áfengi og tóbak til farþega í framhaldsflugi á Keflavíkurflugvelli til öflunar gjaldeyristekna. Var fríhafnarverslunin opnuð í gömlu flugstöðinni 15. október sama ár. Í ársbyrjun 1970 samþykkti Alþingi breytingu á lögum sem heimilaði uppsetningu fríhafnarverslunar fyrir komufarþega sem tók til starfa í maí sama ár. Umsvif voru mjög lítil í fyrstu en hafa vaxið gríðarlega í takt við auknar utanlandsferðir landsmanna.

Tímamót urðu í starfsemi Fríhafnarinnar er Flugstöð Leifs Eiríkssonar var tekin í notkun árið 1987. Glæsileg umgjörð var sköpuð um stórbætta þjónustu og aukið vöruval. Ekki stóð á viðtökunum því sala í Fríhöfninni jókst um meira en helming á einu ári.

Fríhöfnin hefur frá upphafi verið í eigu ríkisins, en ýmsir þjónustuþættir hafa færst yfir á hendur einkaaðila. Á árinu 1998 fjölgaði verslunum á brottfararsvæðinu þegar ný rými voru tekin í notkun. Fram að þeim tíma voru reknar tvær verslanir, hefðbundin fríhöfn og verslun með íslenskar vörur.  Við bættust verslanir með kvenfatnað, íþróttavörur, herrafatnað, gleraugu, úr og skartgripi, og gjafavöru.  Auk þess var þjónusta á sviði gjaldeyrisviðskipta aukin, meiriháttar breytingar gerðar á veitingarþjónustu og umsvif aukin.

Sumarið 2002 voru tvær nýjar fríhafnarverslanir opnaðar í Suðurbyggingu flugstöðvarinnar fyrir farþega frá löndum utan Schengen-svæðisins. Skiptifarþegar geta nú farið beint úr flugvél sinni og inn í verslanir þar sem áhersla er lögð á áfengi, tóbak, snyrtivörur og sælgæti.

Í upphafi árs 2005 var stofnað dótturfélag um verslunarrekstur flugstöðvarinnar, Fríhöfnin ehf., og fríhafnarverslunin aðskilin rekstri hennar, bæði stjórnunar- og rekstrarlega en keypti þjónustu af stoðsviðum FLE samkvæmt samningi.

Keflavíkurflugvöllur ohf.

Við brottför varnarliðsins árið 2006 var Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar falinn allur rekstur flugvallarins með lagasetningu. Ábyrgð á málefnum Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. fluttist frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis í ársbyrjun 2008. Nefnd sem skipuð var til að kanna framtíðarrekstur flugvallarins komst að þeirri niðurstöðu að best væri að hafa stjórn og rekstur flugvallar og flugstöðvar á einni hendi svo tryggja mætti skilvirkni og samhæfða heildarþróun flugvallarins. Jafnframt var þess vænst að með nýju rekstrarumhverfi á gamla varnarsvæðinu yrði hægt að skapa samstarfsvettvang ríkis og sveitarfélaga um þróun og atvinnuuppbyggingu á flugvallarsvæðinu.

Lög um heimild til stofnunar opinbers hlutafélags til að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarins og flugstöðvarinnar ásamt hagnýtingu flugvallarins í þágu öryggis- og varnarmála voru samþykkt á Alþingi 30. mars 2008. Tók Keflavíkurflugvöllur ohf. við rekstrinum 1. janúar 2009 en félagið var stofnað 26. júní 2008. Fríhöfnin ehf. varð jafnframt dótturfélag Keflavíkurflugvallar ohf.

Isavia ohf.

Flugmálastjórn Íslands var stofnuð árið 1945 og tók við rekstri Reykjavíkurflugvallar og flugstjórnarmiðstöðvarinnar af breska flughernum árið eftir. Við tímabundið brotthvarf bandaríska herliðsins frá Keflavíkurflugvelli árið 1947 tók Flugmálastjórn einnig við ýmsum þáttum í rekstri flugvallarins með bandaríska flugvallarfyrirtækinu, svo sem hluta flugumferðarstjórnar og rekstur flugstöðvarinnar. Þetta skipulag hélst til ársins 1953 er öll umsvif íslenska ríkisins á Keflavíkurflugvelli og umsjón með samskiptum við bandaríska varnarliðið færðust til utanríkisráðuneytisins.
Skipan flugmála á Íslandi breyttist árið 2006 með lögboðnum aðskilnaði flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstri frá stjórnsýslu- og eftirlitsstarfsemi Flugmálastjórnar. Breytinguna má rekja til breytinga sem orðið höfðu í umhverfi flugsamgangna og nýrra krafna Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og Evrópusambandsins um aðskilnað rekstrar- og eftirlitshlutverks í flugþjónustu. Nýtt opinbert hlutafélag, Flugstoðir ohf., tók við rekstri íslenskra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu utan Keflavíkurflugvallar í ársbyrjun 2007, þ.m.t. flugleiðsöguþjónustu í alþjóðaflugi.
Skömmu eftir stofnun Keflavíkurflugvallar ohf. skipaði samgönguráðherra starfshóp til þess að kanna kosti sameiningar Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. með tilliti til aukinnar hagkvæmni, skilvirkni, fagþekkingar, og þjónustu í  stjórnun flugvalla og flugleiðsöguþjónustu ásamt jákvæðri byggðaþróun í landinu. Lagði starfshópurinn til að stefnt skyldi að sameiningu félaganna sem fyrst og vöru lög þess efnis samþykkt á Alþingi í desember 2009.

Samgönguráðherra gekkst fyrir stofnun nýs opinbers hlutafélags, Isavia ohf., sem tók við öllum rekstri, eignum og skuldbindingum áðurnefndra félaga 1. maí 2010. Félagið rekur alla flugvelli og flugleiðsöguþjónustu landsins og annast uppbyggingu þeirra með tilheyrandi flugstöðvum og mannvirkjum ásamt því að byggja upp og annast rekstur starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur. Fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu en samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ber ábyrgð á faglegri stefnumótun í samvinnu við stjórn félagsins. Flugmálastjórn Íslands fer með stjórnsýslu og eftirlit með loftferðastarfsemi félagsins.