TáknVeður á Keflavíkurflugvelli       13°C      6 m/s

Listaverk

 

Í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru falleg listaverk eftir íslenska listamenn.  Listaverkin eru bæði inni í flugstöðinni og fyrir utan.

Áttir (Directions)

Listaverkið er eftir Steinunni Þórarinsdóttur (1955). Það sýnir fjórar manneskjur sem komið er fyrir ofan á súlum úr stuðlabergi, og snúa þær í höfuðáttirnar fjórar. Manneskjurnar eru allar steyptar í sama mót úr áli sem tengist lit og efni flugvéla og himinsins. Þær eru í líkamsstærð og standa á 120 cm háum stuðlabergssúlum, íslensku bergi sem minnir á landið sjálft. Hæð verksins er því um 3 metrar og er það innan ramma sem er 3x3 metrar að flatarmáli.

Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, afhjúpaði verkið við vígslu endurbættrar flugstöðvar í apríl 2007.

Áttirnar eru núna fyrir utan komusal flugstöðvarinnar.

Heimasíða Steinunnar: www.steinunnth.com

Silver Sabler

Listaverkið er eftir Erró (1932) og er veggverk úr handmáluðum keramikflísum. Verkið er eftirmynd málverks frá árinu 1999 með sama nafni en hefur verið stækkað upp í keramikmynd sem er 11 metra breið og 4,5 metra há.

Um verkið er meðal annars sagt: „Verkið fjallar öðrum þræði um goðsagnir háloftanna, rótleysi nútímamannsins og flugstöðina sem vettvang ævintýranna.“

Flekaskil

Listaverkið er eftir Kristján Guðmundsson (1941) og sýnir á táknrænan hátt skil Norður-Ameríku og Evrópuflekanna sem ganga frá Reykjanesi á SV horni landsins til NA horns landsins. Um er að ræða gólfverk sem er 15m ryðfrítt stál greypt í eikargólfið á 1. hæð suðurbyggingar flugstöðvarinnar. Flekaskilin eru hugsuð þannig að stefnan á línunni er meginstefna skilanna. Hún er 2 cm á breidd sem samsvarar breikkun rifunnar á einu ári.
 
Verkið er eitt af verkum sem valið var í listaverkakeppni þegar suðurbygging Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var reist.


Regnbogi (A rainbow)


Listaverkið er eftir Rúrí (1951). Það stendur framan við flugstöðvarbygginguna spölkorn til norðurs. Verkið teygir sig 24 metra upp til himins, hæsta listaverk á Íslandi. Það er unninn úr ryðfríum stálrörum, ferhyrndum að lögun og steindu gleri.  Litir regnbogans eru myndaðir með 313, gulum, rauðum, grænum og bláum steindum glereiningum. Verkið rís upp úr hellulögn úr íslensku grágrýti. Í rökkri er verkið lýst upp.

„Hinn náttúrulegi regnbogi birtist fyrirvaralaust á himni, varir í nokkur andartök, hverfur síðan jafn snögglega og hann birtist. Enginn getur höndlað hann, né heldur nálgast hann. Samt hefur hann ákaflega sterkt gildi í hugum flestra“. Verkið var reist árið 1991.

Regnbogi er annað tveggja verka sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um listaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar stuttu eftir að hún var vígð.


Heimasíða Rúrí: www.ruri.is


Þotuhreiður (The Jet Nest)

Listaverkið er eftir Magnús Tómasson (1943). Þotuhreiðrið sýnir stórt egg úr ryðfríu stáli sem trjóna  þotu er að brjótast út úr eins og ungi sem er að brjótast út úr eggi. Verkið er sérlega táknrænt þar sem það stendur á íslensku grjóti.  Magnús Tómasson, höfundur verksins, segir hugmyndina að Þotuhreiðrinu fyrst hafa kviknað fyrir mörgum árum. „Ég var að vinna seríu um sögu fuglsins. Í henni kemur fyrir lítið hænuegg þar sem út sprettur goggur. Ég úrfærði þessa hugmynd betur og útkoman er Þotuhreiðrið, sem er mitt stærsta verk.“ Þotuhreiðrinu var komið fyrir norðanmegin við flugstöðvarbygginguna í upplýstri tjörn. Verkið er úr ryðfríu stáli, er 5,6 m hátt x 4,2 m á breidd og vegur á 6. tonn. Steinhrúgan er um 14 m í þvermál og tjörnin um 1.800 m2.  Verkið allt um 9 m á hæð, en steinhrúgan og tjörnin í kring eru hluti af verkinu.


Þotuhreiðrið er annað tveggja verka sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um listaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar stuttu eftir að hún var vígð.


Flugþrá (Yearning for Flight)

Listaverkið er annað af tveimur glerlistaverkum eftir Leif Breiðfjörð (1945) í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Lögun þeirra minnir á flugdreka og þau túlka þrá fólks til að fljúga um leið og þau vísa í verndaranda Íslands. Ópalgler og gular kúlur eru felldar inn í skermana og vakna til lífsins að kvöldlagi þegar rafmagnsljósum er beint að þeim. 

Flugþrá er 720 x 970 cm að stærð og hangir uppi í brottfarasal gegn norðurglugga. 


Heimasíða Leifs Breiðfjörð: http://www.breidfjord.com/

Íkarus (Icaros)

Listaverkið er annað af tveimur glerlistaverkum eftir Leif Breiðfjörð (1945) í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Leiðarstef verkanna er risavaxin höfuð er horfa til stjarnanna, eins og í minningu helstu flugkappa sögunnar frá goðsagnarverunni Íkarus til geimfara nútímans, en í kjölfari/útblæstri þeirra svífa vonir mannanna, vættir landsins og fuglar himinsins. Verkið er lýst upp á kvöldin.

Íkarus er 490 x 970 cm að stærð og hangir uppi í brottfarasal gegn suðurglugga. 

Heimasíða Leifs Breiðfjörð: http://www.breidfjord.com/

Lágmynd af Leifi Eiríkssyni (Bas-relief of Leifur Eiriksson)

Listaverkið er eftir Ívar Valgarðsson (1954).  Þetta er lágmynd af styttu Leifs sem stendur á Skólavörðuholti í Reykjavík. Myndin er á þrístrendum steinstólpa úr íslenskum grásteini sem er 2,8 metrar á hæð.

Frú Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti, afhjúpaði lágmyndina af Leifi Eiríkssyni við vígslu flugstöðvarinnar 14. apríl 1987, en við hann er flugstöðvarbyggingin kennd.

Tilvísunarpunktur

Listaverkið er eftir Kristján Guðmundsson (1941). Um er að ræða gólfverk sem þar sem stafir sem eru 12 cm á hæð úr ryðfríu stáli eru greyptir í eikargólfið á 2. hæð suðurbyggingar flugstöðvarinnar.  Áletrunin í gólfinu sýnir tilvísunarpunkt - brautarmót, staðinn þar sem flugbrautirnar skerast fyrir Keflavíkurflugvöll í lengdar og breiddargráðum.  Í kringum áletrunina er hringur úr stáli um 5 cm breiður. Þvermál hringsins er um 250 cm. Inngreyptu stafirnir mynda línu sem er um 200 cm að lengd. Hök í hringnum sýna hins vegar á látlausan og lítt áberandi hátt höfuðáttirnar fjórar. Efri brún stafanna liggur í sama fleti og yfirborð viðarins í gólfinu.
 
Verkið er eitt af verkum sem valið var í listaverkakeppni þegar suðurbygging Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var reist.

Ég bið að heilsa

Listaverkið er eftir Sigurjón Ólafsson (1908-1982).  Heiti verksins vísar í hið ástsæla ljóð Jónasar Hallgrímssonar, sem hann mun hafa ort í Kaupmannahöfn vorið 1844. Þótt formið sé abstrakt eru vísanir í myndinni bæði í "fuglinn trúr sem fer með fjaðrabliki háa vegaleysu" og "stúlkuna" heima á Íslandi, sem hann sendi kveðjurnar sínar. Auk hinnar myndrænu fegurðar verksins eiga táknræn gildi þess einnig erindi til mannfjöldans sem er að mætast í flugstöðinni, heilsast og kveður.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar eignaðist verkið árið 1988. Verkið í flugstöðinni er eitt af þremur bronsafsteypum og er í landgangi flugstöðvarinnar.