Um 870 þúsund gestir í júní

Sumarið er heldur betur lent á Keflavíkurflugvelli (KEF) og heldur gestum áfram að fjölga milli mánaða. Alls lögðu 867.310 gestir leið sína um flugvöllinn í júní. Það er tæplega 1% færri gestir en í júní árið á undan.
Flogið var til 79 áfangastaða og voru þeir vinsælustu Kaupmannahöfn, London, New York, París og Amsterdam. Alls flugu 26 flugfélög frá KEF í júní.
Mest var að gera þann 29. júní þegar 35 þúsund gestir fóru um völlinn þann daginn.

Brottfarir Íslendinga voru tæplega 72 þúsund í júní, samkvæmt talningu frá Ferðamálastofu. Það gerir rúmlega 10% fleiri brottfarir en í júní árið á undan. Frá áramótum hafa Íslendingar farið utan um 372 þúsund sinnum, sem er 24,9% aukning frá sama tíma í fyrra.
Brottfarir erlendra gesta frá landinu voru um 234 þúsund í júní. Það gerir rúmlega 10% fleiri en í sama mánuði árið á undan. Flestar brottfarir eru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna (42%), næst Þjóðverja (8%), svo Kanadamanna (5%), Breta (4%) og Frakka (4%).
Frá áramótum (janúar-júní) hafa um 955 þúsund erlendir gestir farið frá landinu um KEF. Um er að ræða 0,8% færri brottfarir en á sama tíma í fyrra.
Sumarið er á bullandi siglingu og við hlökkum til að sjá ykkur á Keflavíkurflugvelli í sumarskapi!