Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Samstæðan og starfsemi

Starf­semi Isa­v­ia ohf.

Móðurfélagið Isavia ber ábyrgð á rekstri Keflavíkurflugvallar. Flugvöllurinn er að fullu rekinn á viðskiptalegum forsendum og í hörðu samkeppnisumhverfi. Í starfsemi hans liggja stærstu viðskiptatækifærin en um leið mesta rekstraráhættan.

Fram­kvæmda­stjórn

Framkvæmdastjórn Isavia ohf.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri

Sveinbjörn Indriðason er hagfræðingur frá Háskóla Íslands (1998). Hann starfaði hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og við áhættustýringu hjá Icelandair (1999-2005). Hann var fjármálastjóri FL Group (2005-2008) og rekstrar- og fjármálastjóri hjá Clara (2011). Sveinbjörn varð fjármálastjóri Isavia árið 2013 og forstjóri í júní 2019.

Bjarni Örn Kærnested, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni

Bjarni Örn Kærnested er með B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MBA frá Waseda háskólanum í Japan. Hann hefur starfað sem forstöðumaður á upplýsingatæknisviði hjá Össuri síðan 2019 og tók við sem framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni árið 2022. Áður starfaði hann hjá Origo og Arion banka.

Elísabet Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar

Elísabet Sverrisdóttir er með B.A. í bókmenntum og MS í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og APME í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði hjá Hagvangi (2006-2017) og var ráðin mannauðsráðgjafi til Isavia árið 2017, mannauðsstjóri árið 2019, aðstoðarmaður forstjóra árið 2021 og framkvæmdastjóri mannauðs og menningar 2026.

Ingibjörg Arnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála

Ingibjörg Arnarsdóttir er með Cand. Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum frá Cass Business School. Hún var framkvæmdastjóri fjármála-, mannauðs- og verkefnastjórnar hjá Reiknistofu bankanna (2016-2020), framkvæmdastjóri fjármála og mannauðs (2008-2016), og framkvæmdastjóri stjórnunar- og mannauðs hjá Valitor.

Maren Lind Másdóttir, framkvæmdastjóri flugvallarþróunar og innviða

Maren Lind Másdóttir er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og stundaði einnig meistarnám í iðnaðarverkfræði frá sama skóla. Hún hefur einnig lokið leiðtoga- og stjórnendaþjálfun hjá KVAN og Conscious Consulting og rekstrar og fjármálanámi hjá Opna háskólanum. Hún hefur starfað hjá Isavia síðan 2012, fyrst sem verkefnastjóri farangurskerfa 2012-2015, síðan sem deildarstjóri farangurskerfa 2015-2020 og þá forstöðumaður mannvirkja og innviða á Keflavíkurflugvelli 2020-2026. Tók við sem framkvæmdastjóri innviða og búnaðar í janúar 2026.

Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnu og samskipta

Hrönn Ingólfsdóttir er rekstrarhagfræðingur, MBA frá Háskóla Íslands. Hún er einnig með B.A. próf frá Háskóla Íslands í félags- og fjölmiðlafræði, M.A. í auglýsingastjórnun frá Michigan State Háskóla í Bandaríkjunum og M.Sc. í aðferðafræði félagsvísinda frá Háskólanum í Edinborg. Hún hefur starfað hjá Isavia frá 2013. Þar áður var hún viðskiptastjóri hjá Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi 2009-2012, framkvæmdastjóri neytendasviðs hjá Skeljungi 2008-2009, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og markaðssviðs hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar ehf. frá 2002-2008, þjónustustjóri hjá Íslandsbanka frá 2000-2002, rannsóknastjóri hjá PwC frá 1997-2000 og sérfræðingur hjá Búnaðarbanka Íslands frá 1992-1997. Hún tók sæti í framkvæmdastjórn Isavia 2026.

Bjarni Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar

Bjarni Páll Tryggvason rekstrarhagfræðingur, MBA frá Háskóla Íslands. Hann er einnig með réttindi til flugumferðarstjórnunar. Hann hefur starfað hjá Isavia og fyrirrennurum þess síðan 2001, fyrst í flugumferðarstjórn og síðan fjölbreyttum verkefnum tengdum flugumferðarþjónustu og flugvöllum á Íslandi. Hann var forstöðumaður flugturns á Keflavíkurflugvelli 2020-2023 og forstöðumaður flugvallarþjónustu 2023-2026. Framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar frá janúar 2026.

Dótt­ur­fé­lög

Við eigum tvö sjálfstæð dótturfélög: Isavia ANS ehf. og Innanlandsflugvellir ehf. Þessi félög eru að fullu í eigu móðurfélagsins. Þau setja sér sína eigin fyrirtækjastefnu en vinna í samræmi við flestar stuðningsstefnur móðurfélagsins. Þetta er í takt við eigandastefnu dótturfélaga Isavia ohf. Framkvæmdastjórn hvers félags ber ábyrgð á að framfylgja sinni stefnu.

Sinnir flugleiðsöguþjónustu í innanlands- og alþjóðaflugi í flugleiðsögusvæði yfir Norður-Atlantshafi. Félagið rekur sértæka þjálfunardeild fyrir flugumferðarstjórn, flugfjarskipti, fluggagnafræði og flugupplýsingaþjónustu. Ásamt því að sinna flugprófunarverkefnum á Islandi, Grænlandi og Færeyjum.

Innanlandsflugvellir ehf. sér um rekstur íslenskra áætlunarflugvalla annarra en Keflavíkurflugvallar. Reksturinn grundvallast á þjónustusamningi félagsins við Innviðaráðuneytið sem ákvarðar þjónustustig flugvallanna, rekstur og viðhald, enda er um að ræða hluta af almenningssamgöngukerfi sem er í eigu ríkisins.

Lyk­il­tölur 2024

Farþegar

Fjöldi farþega um alla flugvelli Isavia nam rétt rúmlega 9 milljónum árið 2024, sem er 6,5% aukning frá árinu 2023. Fjölgun var mest á Keflavíkurflugvelli eða 7,1% og á Akureyrarflugvelli um 4,7%. Fækkun var hins vegar á Reykjavíkurflugvelli um 0,4% og um 0,8% á Egilsstaðaflugvelli. Heildarfjöldi millilandafarþega um íslenska áætlunarflugvelli árið 2024 fjölgaði úr tæplega 7,8 milljónum í rúmlega 8,3 milljónir, eða um 7,2% milli ára. Mest var fjölgunin á Akureyrarflugvelli en þar fjölgaði millilandafarþegum um 40,0%. Innanlandsfarþegum fækkaði á sama tíma úr tæplega 665 þúsund í rúmlega 652 þúsund, eða um 1,9%.

Flughreyfingar

Flughreyfingar á öllum flugvöllum Isavia voru rúmlega 138 þúsund árið 2024, sem er 4,7% fækkun frá árinu á undan. Hreyfingum fækkaði um 2,3% á Keflavíkurflugvelli, um 6,8% á Reykjavíkurflugvelli, um 7,5% á Akureyrarflugvelli og 4,3% á Egilsstaðaflugvelli. Flughreyfingar á milli landa voru tæplega 68 þúsund, sem er 4,5% aukning fá árinu 2023. Þar af var fjölgunin mest á Keflavíkurflugvelli eða tæp 5,0%. Innanlands fækkaði flughreyfingum úr tæplega 80 þúsund árið 2023 í rétt rúmar 70 þúsund árið 2024, eða um 12,1%. Það skýrist vegna minni umsvifa í einka-og kennsluflugi og snertilendingum.

Vöruflutningar

Árið 2024 fóru 61,6 þúsund tonn af vörum um flugvelli félagsins, sem er 1,3% minna magn en árið á undan. Vöruflutningar á milli landa voru rétt rúmlega 60 þúsund tonn, sem er um 1,1% minna magn en árið 2023. Vöruflutningar innanlands minnkuðu hins vegar á sama tíma um 9,5% eða úr 1.333 tonnum í rúmlega 1.207 tonn.

Flugumferð

Rúmlega 200 þúsund flugvélar fóru um íslenska flugstjórnarsvæðið árið 2024, sem er fjölgun um 5,2% frá árinu 2023. Alls voru flognir rúmlega 282 milljónir kílómetra í íslenska úthafsflugstjórnarsvæðinu árið 2024, eða 7,7% fleiri en árið á undan. Umferð til og frá landinu er 33,7% af umferðinni og yfirflug 66,3%. Rúmlega þriðjungur allrar flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið sem er í umsjón Isavia ANS.