991 þúsund gestir í ágúst

Ferðaþyrstir Íslendingar og erlendir gestir settu mark sitt á nýliðinn ágúst mánuð á Keflavíkurflugvelli. Alls lögðu 991.215 gestir leið sína um flugvöllinn, sem gerir rétt um -3% minna en í ágúst í fyrra.
Í mánuðinum flugu 28 íslensk og erlend flugfélög til 81 áfangastaðar. Í ágúst árið á undan voru flugfélögin 25 sem flugu til 79 áfangastaða og því ánægjulegt að sjá aukningu í framboði áfangastaða. Vinsælustu áfangastaðirnir þennan mánuðinn voru Kaupmannahöfn, New York, London, París og Amsterdam.
Mest var að gera á flugvellinum þann 3. ágúst þegar 37 þúsund gestir fóru um völlinn.

Brottfarir erlendra gesta frá landinu voru 311 þúsund samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Það gerir 11% fleiri brottfarir en í ágúst í fyrra. Ríflega fjórðungur þeirra, eða 88 þúsund, má rekja til Bandaríkjamanna. Ítalir voru þar á eftir með 24 þúsund brottfarir (8% af heild), Þjóðverjar með 22 þúsund brottfarir (7% af heild), Spánverjar með tæplega 20 þúsund (6% af heild) og þar á eftir fylgdu Frakkar með 18 þúsund brottfarir (6% af heild).
Um 59 þúsund Íslendingar lögðu land undir fót í ágúst. Það gerir 13% fleiri brottfarir en í sama mánuði árið á undan. Frá áramótum hafa Íslendingar farið utan um 497 þúsund sinnum, sem er 20,6% aukning frá sama tíma í fyrra.
Áfram verður nóg um að vera á vellinum í vetur. Við hvetjum gesti til að mæta tímanlega fyrir flug til þess að geta notið úrvals veitingastaða og verslana í flugstöðinni. Fljótlegasta leiðin til að innrita sig er á netinu eða í appi heiman fyrir. Í innritunarsalnum eru yfir 60 sjálfsafgreiðslustöðvar sem eru opnar allan sólarhringinn. Góða ferð!