Fyrsta flugi Icelandair til Istanbúl fagnað

Icelandair hefur bætt nýjum áfangastað við leiðakerfi sitt, hinni sögufrægu borg Istanbúl í Tyrklandi. Fyrsta flugið var í gær, föstudaginn 5. september, þegar áhöfn Icelandair ásamt góðum gestum lögðu af stað í háloftin til Istanbúl.
Flogið verður til borgarinnar tvisvar til þrisvar sinnum í viku í vetur og er flugtíminn um fimm klukkustundir og 30 mínútur.
Farþegum flugsins var boðið upp á léttar veitingar við brottfararhliðið á Keflavíkurflugvelli við tilefnið.




Sögufræg borg og þægilegar tengingar
Saga Istanbúl er sveipuð miklum töfraljóma enda liggur hún á mörkum Evrópu og Asíu. Borgin er bæði fjölmenn og víðfeðm og þekkt fyrir sögulegar minjar, gómsætan bita á nánast hverju götuhorni og einn elsta markað í heimi, Grand Bazaar.
Margir ferðamenn byrja á því að skoða hinn sögulega miðbæ, Sultanahmet, þar sem öll þekktustu kennileiti borgarinnar er að finna á afmörkuðu svæði. Má þar nefna hina goðsagnakenndu Bláu mosku sem reist var á tímum Tyrkjaveldis, ásamt stórmoskunni heimsþekktu Ægisif eða Hagia Sophia. Þar rétt hjá má sjá hina ríkmannlegu Topkapi-höll, sem eitt sinn var aðsetur súltana Tyrkjaveldis. Á þessu tiltölulega litla svæði má öðlast innsýn í sögu, byggingarlist og glæsileika borgarinnar gegnum aldirnar.
Borgin er spennandi viðbót við öflugt leiðakerfi Icelandair og býður upp á þægilegar tengingar til Asíu og Miðausturlanda. Samhliða beinu flugi til tyrknesku borgarinnar mun Icelandair efla enn frekara samstarf við flugfélagið Turkish Airlines.

Aukin eftirspurn frá Asíu
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segist hafa fundið fyrir aukinni eftirspurn um flug frá Asíu til Íslands.
Við höldum áfram að útvíkka leiðakerfi okkar og samstarf við leiðandi flugfélög og styrkjum þannig enn frekar tengingar Íslands við umheiminn sem skilar ávinningi fyrir ferðaþjónustu, viðskiptalífið og almenning á Íslandi.
Bogi Nils BogasonForstjóri Icelandair



