Fyrsta flug til Nashville

Daníel Jón Baróns og Kristinn Þór Óskarsson úr hljómsveitinni Superserious tóku á móti fyrstu farþegum Icelandair til Nashville í Bandaríkjunum með ljúfum tónum á KEF fimmtudaginn 10. apríl síðastliðinn. Jómfrúarflugi Icelandair til þessa nýja áfangastaðar vestan hafs var einnig fagnað með léttum veitingum sem farþegarnir gátu fengið sér um leið og þeir hlýddu á tóna indie hljómsveitarinnar frá Garðabæ.
Nashville er átjándi áfangastaður Icelandair í Norður-Ameríku. Borgin er oft nefnd höfuðstaður kántrítónlistar í heiminum. Nashville er einnig nefnd tónlistarborgin en hún er ekki síður þekkt fyrir gospel, jass, popp og rokktónlist. Því þótti tilvalið að bjóða farþegum upp á íslenska tónlist við fyrsta flug.
Superserious hefur verið í mikilli sókn á erlendri grundu undanfarið. Hljómsveitin er einmitt á leið til Nashville í júní, ásamt fulltrúum Tónlistarmiðstöðvar, til að koma fram á tónleikum í borginni.
Tónlistarmiðstöð fagnar þessu beina flugi til Nashville, tónlistarmekka Bandaríkjanna, og hlakkar til að rækta tengslin við tónlistariðnaðinn í borginni – íslenskri tónlist til framdráttar. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð eru tónleikar íslensks tónlistarfólks í Nashville í júní
María Rut ReynisdóttirFramkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar



