Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Tuttugu flugfélög fljúga beint frá KEF í vetur

Áætlað er að tæplega þrjár milljónir gesta muni leggja leið sína um Keflavíkurflugvöll (KEF) í vetur. Alls munu 20 flugfélög fljúga beint frá KEF til 65 áfangastaða yfir tímabilið.

Rétt tæplega þrjár milljónir gesta munu ferðast um KEF í vetur, samkvæmt áætlun flugvallarins, en miðað er við tímabilið frá október 2025 til og með mars 2026. Tuttugu flugfélög munu fljúga frá KEF til 65 áfangastaða í vetur og verða að meðaltali 106 flugferðir á degi hverjum.

Nýir og spenn­andi áfanga­stað­ir í vet­ur

Alls munu tíu nýjar flugleiðir milli KEF og útlanda bætast við í vetur. Icelandair bætir við 5 nýjum áfangastöðum og mun fljúga beint til Istanbúl, Malaga, Edinborgar, Nashville og Miami. Þá bætir Discover Airlines við München, LOT Airlines við Varsjá og flugfélagið Jet2.com bætir við London, Bournemouth og Liverpool.

Brotthvarf Play hefur að sjálfsögðu áhrif á farþegafjölda en við erum engu að síður að sjá fjölda nýrra áfangastaða koma inn í vetur. Það er ánægjulegt að sjá að áhugi erlendra flugfélaga á Íslandi og KEF heldur sér milli ára.

Grétar Már GarðarssonForstöðumaður flugfélaga og markaðsmála hjá KEF

Ný flug­fé­lög og fjölg­un flug­ferða

Tvö ný flugfélög fljúga frá Keflavíkurflugvelli í vetur; Discover Airlines frá Þýskalandi og LOT Airlines frá Póllandi. Bæði flugfélög hófu flug frá KEF í sumar og halda áfram flugi yfir vetrartímabilið. LOT er að fljúga í fyrsta sinn til Íslands að vetri til, með þremur vikulegum brottförum frá Varsjá. Discover Airlines er einnig að hefja sitt fyrsta vetrarflug til Íslands, með beinu flugi tvisvar í viku frá München.

Framboð Icelandair eykst um 10% á milli ára, sem samsvarar 950 flugferðum og um 200.000 flugsætum. Önnur flugfélög sem munu fjölga flugferðum í vetur eru t.a.m. Finnair, þar sem framboðið eykst um 50% á milli ára sem samsvarar 166 ferðum, SAS með 30% framboðsaukningu sem samsvarar 112 flugferðum og Wizz Air með 21,5% aukningu sem samsvarar um 132 flugferðum.

Þeir áfangastaðir sem oftast verður flogið til í vetur eru Kaupmannahöfn og London Heathrow með 3-4 flugferðir á dag, Manchester og Helsinki með 2-3 ferðir á dag og Amsterdam með 1-3 flugferðir á dag.

Breitt fram­boð hjá flug­fé­lög­un­um

Flugfélagið easyJet býður upp á reglulegt flug milli KEF og vinsælla áfangastaða í vetur. Flogið verður daglega til London Gatwick, London Luton og Manchester. Auk þess mun easyJet fljúga reglulega til annarra vinsælla staða líkt og Mílanó, Bristol, Edinborgar, Birmingham og Parísar.

Yfir vetrartímabilið mun Wizz Air fljúga beint frá KEF til þriggja borga í Póllandi; Gdansk, Katowice og Varsjár. Þar að auki mun flugfélagið fljúga frá Búdapest og Mílanó til KEF.

Finnska flugfélagið Finnair hefur bætt við tíðni flugferða milli Helsinki og KEF í vetur. Síðasta vetur var flogið sjö sinnum í viku en núna í vetur verður flogið fjórum sinnum oftar, eða ellefu sinnum í viku.

SAS flýgur í vetur sjö sinnum í viku milli KEF og Kaupmannahafnar og þrisvar sinnum í viku til Osló. Breska flugfélagið British Airways flýgur milli KEF og London Heathrow 8-9 sinnum í viku í vetur. Þá mun flugfélagið Jet2.com bjóða upp á beint flug frá Belfast, Birmingham, East Midlands, Leeds, Liverpool, Manchester, Newcastle og London Stansted.

Allir áfangastaðir sem flogið er beint frá KEF í vetur.