Búist er við 5,6 milljónum gesta í sumar á Keflavíkurflugvelli

Áætlað er að 8,2 milljónir gesta muni ferðast um Keflavíkurflugvöll (KEF) á árinu og þar af munu 5,6 milljónir þeirra ferðast um völlinn í sumar. Að meðaltali munu 180 flug fara daglega frá flugvellinum yfir sumartímabilið. Hægt verður að fljúga til 89 áfangastaða í sumar og munu 27 flugfélög fljúga beint frá KEF í sumar.
Mikill fjöldi gesta yfir sumarmánuðina
Farþegaspá KEF gerir ráð fyrir að yfir sumarmánuðina, apríl til október, verði á pari við fyrra ár. Gert er ráð fyrir að 5,6 milljónir gesta muni leggja leið sína um völlinn, þar af 1,7 milljón að tengja úr einu flugi í annað. Á sama tíma er búist við 1,5 milljón erlendra ferðamanna leggi leið sína um völlinn og 400 þúsund Íslendingar leggi land undir fót.
Í sumar munum við taka á móti 5,6 milljónum gesta en við sjáum fram á hóflegan vöxt í farþegafjölda frá fyrra sumri. Fyrr á árinu var ný austurálma tekin að fullu í notkun, þar sem bættust við fjórir nýir landgangar sem leiða beint út í vél. Með þessu getum við bætt upplifun gesta flugvallarins enn frekar, sérstaklega á álagstímum eins og yfir sumarið.
Grétar Már GarðarssonForstöðumaður flugfélaga og markaðsmála

Nýir og spennandi áfangastaðir í sumar
Alls bætast við 11 nýir og spennandi áfangastaðir í sumar hjá flugfélögunum. Icelandair bætir við tveimur nýjum áfangastöðum og mun fljúga beint til Nashville og Gautaborgar. Þá mun Play fljúga til fjögurra nýrra áfangastaða í sumar sem eru Álaborg, Antalya, Faro og Valencia.
Auk þess mun Air Baltic fljúga til Tallinn og easyJet til Basel. Þá bætast við tvö ný flugfélög í sumar en það eru Discover Airlines frá München og LOT Airlines frá Varsjá.

Sannkallað sumarævintýri fram undan
Um 180 flug munu fara að meðaltali daglega frá KEF yfir sumartímabilið. Flogið verður beint til 89 áfangastaða með 27 flugfélögum frá flugvellinum í sumar.
Flogið verður sex sinnum daglega til Kaupmannahafnar og New York, fimm sinnum til London, og fjórum sinnum á dag til Amsterdam, Boston, Parísar og Óslóar.
Hreyfingar til og frá Keflavíkurflugvelli í sumar, komur og brottfarir samanlagt, verða tæplega 38 þúsund talsins. Það er svipað og í fyrra en töluverð aukning frá síðustu árum.
.jpg&w=3840&q=80)
Íslensku flugfélögin bæta í flugið
Íslensku flugfélögin boða breytingar í sumar. Icelandair hóf fyrsta flug til Nashville í apríl og mun fljúga 4 sinnum í viku út sumarið. Næsti áfangastaður hjá þeim er Gautaborg sem hefst í lok júní og verður flogið 2 í viku út ágúst. Í September bætist svo við beint flug til Istanbúl fjórum sinnum í viku. Í heildina eru yfir 50 áfangastaðir hjá Icelandair í sumar og þar af 19 í Norður Ameríku.
Play er með yfir 30 áfangastaði í sumar til að velja úr og þar af eru fjórir nýir, Álaborg í Danmörku, Antalya í Tyrklandi, Faro í Portúgal og Valencia á Spáni.

Ísland góður áfangastaður
Alþjóðlegu flugfélögin boða sömuleiðis breytingar og bæta við nýjum áfangstöðum með beinu flugi til KEF. Flugfélagið easyJet bætti við Basel í Sviss í byrjun apríl og mun fljúga út október 2 sinnum í viku. Þetta er viðbót við fimm aðra áfangastaði sem easyJet býður upp á yfir sumartímann til Keflavíkur.
WestJet hefur aukið framboð um 40% í sumar og fer í dagleg flug á tímabili yfir hásumarið, þetta er annað árið hjá WestJet á Keflavíkurflugvelli frá Calgary í Kanada.
Það er ánægjuleg þróun að sjá að erlendu flugfélögin hafi trú á Íslandi sem áfangastað. Sem dæmi þá heldur WestJet áfram með beint flug til KEF frá Calgary sem þeir hófu í fyrra, auk þess sem flugfélögin LOT og Discover bætast við í sumar. Þetta endurspeglar sterka stöðu Íslands sem eftirsóknarverðs áfangastaðar.
Grétar Már GarðarssonForstöðumaður flugfélaga og markaðsmála