Hóflegur vöxtur farþegafjölda 2025 og metár í komu ferðamanna
.jpg&w=3840&q=80)
Tæplega 8,4 milljónir farþega munu ferðast um Keflavíkurflugvöll (KEF) árið 2025 samkvæmt farþegaspá flugvallarins fyrir árið. Árið 2024 fóru tæplega 8,3 milljónir um flugvöllinn og er því gert ráð fyrir 0,8% fjölgun farþega á milli ára. Spáin gerir ráð fyrir 3% fjölgun erlendra ferðamanna milli ára, þeir verði rúmlega 2,32 milljónir eða um 9 þúsund fleiri en þeir voru metárið 2018.
Við horfum fram á hóflegan vöxt og þriðja stærsta ár Keflavíkurflugvallar hvað varðar farþegafjölda, og það stærsta í komu erlendra ferðamanna. Þetta endurspeglar sterka stöðu Keflavíkurflugvallar sem tengistöðvar og Íslands sem eftirsóknarverðs áfangastaðar þrátt fyrir áskoranir á liðnu ári.
Guðmundur Daði RúnarssonFramkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Keflavíkurflugvelli
„Á árinu munum við taka nýja austurálmu flugstöðvarinnar að fullu í notkun, þar á meðal fjóra nýja landganga sem leiða beint út í vél. Þetta er mikilvægur áfangi í því að bæta gæði og þjónustu flugvallarins. Þessi þróun styrkir okkur í alþjóðlegri samkeppni og skapar betri upplifun fyrir gesti okkar og viðskiptavini,“ segir Guðmundur Daði enn fremur.

Farþegaspá KEF fyrir 2025 gerir ráð fyrir að 8,37 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll. Aðeins tvisvar hafa farþegarnir verið fleiri, 8,76 milljónir 2017 og 9,80 milljónir 2018. Árið 2024 voru farþegarnir tæplega 8,30 milljónir og því gert ráð fyrir 0,8% fjölgun á milli ára. Ef litið er til einstaka mánaða þá verður mest fjölgun farþega á milli ára í apríl, 16,7%, og í maí, 7,1%.
Yfir sumarmánuðina munu 26 flugfélög fljúga áætlunarflug til 92 áfangastaða og 21 flugfélag til 70 áfangastaða yfir vetrarmánuðina. Áætlað er að hlutfall tengifarþega verði um 30% af heildar farþegafjölda sem er svipað og það var 2024. Tengifarþegar eru farþegar sem nýta KEF sem tengistöð án þess að dvelja á Íslandi.

Samhliða farþegaspánni var einnig unnin spá um fjölda erlendra ferðamanna sem muni koma til Íslands árið 2025 og einnig fjölda Íslendinga sem ferðast út fyrir landsteinana.
Samkvæmt spánni munu ríflega 2,32 milljónir erlendra ferðamanna koma til Íslands í gegnum KEF árið 2025. Það er tæplega 9 þúsund farþegum meira en metárið 2018 og því stefnir í nýtt metár í komum erlendra ferðamanna til landsins. Á nýliðnu ári voru þeir um 2,26 milljónir og því gert ráð fyrir 3,0% aukningu á milli ára. Mest verður fjölgunin í apríl (16,6%), maí (10,8%) og í júní (6,1%).
Ferðalög Íslendinga til útlanda munu aukast um 1% á milli ára. Spáin gerir ráð fyrir um 612 þúsund íslenskum ferðamönnum á leið til útlanda, sem jafngildir því að hver landsmaður fari að meðaltali um 1,6 sinnum til útlanda yfir árið.
Um farþegaspá KEF
Farþegaspá Keflavíkurflugvallar fyrir 2025 byggir á greiningum og mati á þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn farþega eftir flugi til og frá flugvellinum. Spáin er unnin út frá upplýsingum um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa tryggt sér og upplýsingum úr kerfum Keflavíkurflugvallar til viðbótar við fréttir af áformum flugfélaga.
Farþegatölur eru settar fram í þremur liðum og snúa að brottförum og komum farþega og svo tengifarþegum. Brottfararfarþegar eru þau sem fljúga frá flugvellinum eftir dvöl á Íslandi. Komufarþegar eru þau sem koma til dvalar á Íslandi. Tengifarþegar eru þau sem nýta KEF sem tengistöð, þ.e. koma með einu flugi til flugvallarins og skipta yfir í annað flug án þess að koma inn í landið og eru taldir bæði við komu og brottför.

