Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

508 þúsund gestir í desember

Keflavíkurflugvöllur (KEF) tók á móti 507.799 gestum í desember 2025.

Á síðasta mánuði ársins fóru 507.799 gestir um Keflavíkurflugvöll (KEF). Það gerir 8,1% færri gesti en í desember árið á undan.

Alls flugu 17 flugfélög beint frá KEF til 56 áfangastaða í desember. Vinsælustu áfangastaðirnir voru London, Kaupmannahöfn, Manchester, New York og París.

Mest var að gera 21. desember í mánuðinum þegar 21.428 gestir fóru um flugvöllinn.

Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu voru brottfarir Íslendinga um 54 þúsund í desember. Það gerir 16% fleiri farþega en í sama mánuði árið á undan.

Alls voru brottfarir Íslendinga um 709 þúsund árið 2025 sem er 18% fleiri en árið 2024 þegar 601 þúsund Íslendingar lögðu land undir fót. Flestar brottfarir voru í apríl á árinu, þegar um 81 þúsund Íslendingar ferðuðust utan. Um er að ræða stærsta ferðaár Íslendinga hvað varðar utanlandsferðir og sló það því fyrra met frá árinu 2018, þegar brottfarir mældust um 668 þúsund.

Brottfarir erlendra gesta í desember voru um 120 þúsund, sem er um 22 þúsund færri erlendir gestir en í desember árið á undan. Því voru brottfarir erlendra gesta 16% færri í desember borið saman við sama mánuð árið 2024.

Flestar brottfarir í desember voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða 27 þúsund sem gerir 23% af öllum erlendum gestum í desember 2025. Þar á eftir komu Bretar sem voru 19 þúsund (16% af heild), Kínverjar sem voru um 12 þúsund (10%), Pólverjar sem voru 5 þúsund (5%) og loks Frakkar sem voru 4 þúsund (4%).

Brottfarir erlendra gesta frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 2,25 milljónir árið 2025 eða um átta þúsund færri en árið 2024. Fækkunin nemur 0,4% milli ára. Langflestar brottfarir erlendra farþega voru í ágúst 2025, alls um 311 þúsund, sem er um 30 þúsund fleiri en í ágúst 2024.