Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Aðalfundur Isavia

Ársskýrsla Isavia fyrir árið 2024 var gefin út í dag á aðalfundi félagsins og ársuppgjör félagsins fyrir sama tímabil samþykkt auk þess sem stjórn var kjörin.

Fundurinn var haldinn á Courtyard Marriot hótelinu í Reykjanesbæ í dag og var einnig streymt á netinu.

Í ávarpi sínu fór Kristján Þór Júlíusson, fráfarandi stjórnarformaður Isavia, yfir merka áfanga í rekstri félagsins á síðasta ári. Hann sagði það sérstakt ánægjuefni að hafa fengið tækifæri til að fylgja byggingu nýrrar austurálmu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli úr hlaði. Byggingin hafi verið tekin í notkun á dögunum og sé fyrsti vísir að því að gjörbylta möguleikum núverandi flugstöðvar til að þjóna tengiflugi á flugvellinum með mun skilvirkari hætti. Fráfarandi stjórn hafi sýnt uppbyggingaráformum flugvallarins mikinn stuðning þar sem það væri lykilatriði að vel tækist til við það verkefni að tryggja í sessi þann árangur í fjölda farþega sem þegar hefði náðst.

Kristján Þór sagði einnig að afkomu móðurfélags Isavia á síðasta ári hefði verið góð og rekstraráætlun metnaðarfull. Þrátt fyrir það væri umfang nauðsynlegra framkvæmda af þeirri stærðargráðu að efnahagsreikningur félagsins muni ekki standa undir framkvæmdakostnaði til að ná núverandi markmiðjum Keflavíkurflugvallar, með áframhaldandi styrkingu flugtenginga að leiðarljósi.

Óbreytt uppbyggingaráætlun félagsins er þannig það metnaðarfull í tíma og kostnaði að óhjákvæmilegt er, að henni óbreyttri, að styrkja félagið með auknu hlutafé.

Kristján Þór JúlíussonFráfarandi stjórnarformaður Isavia

Á fundinum fór Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, yfir ársreikning félagsins. Árið 2024 var stærsta fjárfestingarár í sögu Isavia. Samstæðan fjárfesti fyrir um 18 milljarða króna.

Árs­skýrsla Isa­v­ia 2024

Ársskýrsla Isavia er nú aðgengileg á vef félagsins. Þar má finna ársreikning samstæðunnar, lykiltölur úr rekstrinum, yfirferð yfir stefnu og stjórnun Isavia og upplýsingar um sjálfbærnimál á flugvöllum og lífið innan flugvallarsamfélagsins.

Stjórn Isa­v­ia 2025-2026

Á aðalfundinum var kosin stjórn og varastjórn Isavia ohf. Í stjórn Isavia taka nú sæti þau Steinþór Pálsson, sem var kjörinn stjórnarformaður, Gréta María Grétarsdóttir, Hera Grímsdóttir, Marta Jónsdóttir og Ómar Svavarsson. Í varastjórn voru kjörin þau Bjarni Herrera og Sigrún Dóra Sævinsdóttir.