Farþegar á öðrum ársfjórðungi á pari við spá

Brottfararfarþegar yfir spá
Heildarfjöldi gesta Keflavíkurflugvallar (KEF) var 2.222.402 á öðrum ársfjórðungi ársins, apríl-júní 2025. Farþegaspá KEF gerði ráð fyrir 2,23 milljón gestum og var því mismunur 9 þúsund færri gestir eða -0,4% undir spá.
Brottfararfarþegar voru 759 þúsund en spáin hafði gert ráð fyrir 746 þúsund. Voru brottfararfarþegar því 13 þúsund fleiri eða +2% yfir spá flugvallarins.
Aukning um 5% varð á sætaframboði flugfélaga á öðrum ársfjórðungi ársins miðað við sama tímabil árið á undan. Þá var heildarfjöldi farþega 5% fleiri á öðrum ársfjórðungi ársins í ár borið saman við annan ársfjórðung í fyrra.

Færri tengifarþegar
Tengifarþegar, eða farþegar sem nýta KEF sem tengistöð án þess að dvelja á Íslandi, voru 684 þúsund á öðrum ársfjórðungi ársins. Hafði farþegaspáin áætlað 717 þúsund tengifarþega á þessu tímabili, sem gerir 33 þúsund færri tengifarþega eða -5% undir spá.

Íslendingar ferðaþyrstir
Íslendingar voru á faraldsfæti á öðrum ársfjórðungi ársins og voru brottfarir þeirra fleiri en spáin hafði gert ráð fyrir. Áætlað var að fjöldi Íslendinga sem ferðuðust frá KEF yrði 187 þúsund en var rúmlega 219 þúsund. Því fóru 32 þúsund fleiri Íslendingar af landi brott eða 17% yfir spá.

Færri erlendir ferðamenn
Erlendir farþegar voru 539 þúsund frá apríl-júní á þessu ári. Hafði farþegaspá KEF gert ráð fyrir 559 þúsund erlendum ferðamönnum á öðrum ársfjórðungi. Voru erlendir gestir því um 20 þúsund færri en áætlað var og 4% undir spá.
Samkvæmt talningu frá Ferðamálastofu voru Bandaríkjamenn stærsti hópur erlendra ferðamanna á öðrum ársfjórðungi ársins eða rúmlega 183 þúsund, sem er 34% af öllum erlendum ferðamönnum. Þar á eftir fylgdu Bretar sem voru 43 þúsund (8% af heild), Þjóðverjar voru 37 þúsund (7% ), Pólverjar voru 24 þúsund (4%) og síðan voru Kínverjar 23 þúsund (4%).
