Árshlutauppgjör Isavia

Rekstrarafkoma af samstæðu Isavia fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á fyrri helmingi ársins 2025 var jákvæð um 4.245 milljónir króna samanborið við 3.213 milljónir króna fyrir sama tímabil á síðasta ári sem er betri niðurstaða en upphaflegar áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir. Aukningin nemur um 1.032 milljónum króna.
Tekjur samstæðunnar jukust um 1.192 milljónir króna milli tímabila og námu 24.453 milljónum króna. Heildarafkoma tímabilsins var jákvæð um 1.130 milljónir króna samanborið við jákvæða afkomu upp á um 455 milljónir króna fyrir sama tímabil í fyrra.
Fjárfestingar samstæðunnar námu um 6.107 milljónum króna á fyrstu 6 mánuðum ársins samanborið við 8.533 fyrir sama tímabil í fyrra.
Á fyrstu 6 mánuðum ársins fóru um 3,7 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll sem er um 1,8% aukning á milli ára.
Lykiltölur úr hálfsársuppgjöri samstæðu Isavia 2025
- Tekjur: 24.453 milljónir króna
- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA): 4.245 milljónir króna
- Heildarafkoma eftir skatta: 1.130 milljónir króna
- Handbært fé: 6.556 milljónir króna
- Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum: 6.107 milljónir króna
- Eigið fé í lok tímabils: 50.421 milljónir króna
- Eiginfjárhlutfall: 42,1%