Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Bílaleigum í komusal fjölgar

Fjórar bílaleigur munu verða með afgreiðslu í komusal Keflavíkurflugvallar frá og með 1. apríl næstkomandi og fjölgar þeim þar með um eina. Þetta er niðurstaða útboðs á aðstöðunni sem hófst vorið 2025.

Boðin var út aðstaða fyrir afgreiðslu bílaleiga í komusal á Keflavíkurflugvelli ásamt bílastæðum fyrir bílaleigubíla við flugstöðina. Niðurstaða útboðsins er að ganga til samninga við ALP hf., Bílaleiguna Berg ehf., Bílaleigu Flugleiða ehf. og Höldur ehf.

Með útboðinu verða nokkrar breytingar á afgreiðslu bílaleiga í og við flugstöðina. Í vor hefja þær starfsemi í nýrri og endurbættri aðstöðu í flugstöðinni. Svæðið hefur verið endurhannað með það að markmiði að vera opnara og aðgengilegra auk þess sem bílastæðum fyrir bílaleigur við flugstöðina verið fjölgað. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við nýja og endurbætta aðstöðu ljúki 15. mars og að bílaleigurnar hefji starfsemi samkvæmt nýjum rekstrarsamningi 1. apríl 2026.

Fram til þessa hafa þrjár bílaleigur verið með aðstöðu í flugstöðinni en með útboðinu fjölgar þeim um eina. Bílaleigan Berg, sem rekur bílaleigu undir vörumerkinu Sixt kemur inn sem nýr rekstraraðili. Hinar þrjár hafa verið með afgreiðslu í flugstöðinni um langt skeið. Þær eru ALP hf., sem rekur bílaleigu undir vörumerkjunum Avis, Budget og Payless; Bílaleiga Flugleiða ehf., sem rekur bílaleigu undir vörumerkinu Hertz og Höldur ehf., sem rekur bílaleigu undir vörumerkjum Bílaleigu Akureyrar og Europcar.

Útboðsferlið hófst 30. maí þegar hæfisgögn voru gerð aðgengileg á útboðsvef Isavia í kjölfar auglýsingar á Evrópska efnahagssvæðinu. Fimm aðilar, sem staðist höfðu hæfiskröfur, skiluðu inn tilboðum í rekstur á aðstöðu en fjórir pakkar voru í boði.

Um útboðsferli Isavia 

Isavia ber samkvæmt lögum og reglum um opinber innkaup að bjóða út aðstöðu fyrir rekstraraðila á Keflavíkurflugvelli, í þeim tilvikum þar sem virði samnings fer yfir lögákveðnar viðmiðunarfjárhæðir. Útboðunum er ætlað að tryggja samkeppni sem verður til hagsbóta fyrir neytendur og rekstraraðila og byggjast á grundvelli reglugerðar nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Útboðin eru auglýst á EES svæðinu.