Tekið vel á móti Bjössa brunabangsa

Brunabangsinn Bjössi hefur tryggt sér stað í hjörtum margra íslenskra barna þar sem sjónvarpsþættir um brunabangsann hafa verið sýndir á RÚV og hafa þættirnir slegið í gegn. Bjössi brunabangsi er nýfluttur til landsins frá Þrándheimi í Noregi og er þetta í fyrsta skipti sem hann leggur land undir fót.



Ferðalagið hjá Bjössa brunabangsa gekk vel og fékk hann stórgóðar móttökur á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins með Icelandair. Í komusalnum biðu kátir krakkar frá leikskólanum Heiðarseli í Reykjanesbæ ásamt slökkviliðsstjórum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Brunavarna Suðurnesja.



Bjössi mun vera öllum slökkviliðum landsins til aðstoðar við fræðslu og forvarnarstarf, einkum þegar kemur að fræðslu fyrir yngstu kynslóðina. Um er að ræða stórt og metnaðarfullt verkefni sem stuðlar að bættum brunavörnum á heimilum landsins til framtíðar.


Bjössi brunabangsi er spenntur fyrir nýjum heimkynnum og við á Keflavíkurflugvelli gleðjumst yfir því að hafa tekið þátt í þessu verkefni með öðrum samstarfsaðilum.

