Stöðugleiki í fjölda erlendra ferðamanna en fækkun farþega

Spáin gerir því ráð fyrir að heildarfarþegafjöldi dragist saman á milli ára, sem kemur einkum fram í fækkun tengifarþega og færri utanlandsferðum Íslendinga á árinu. Aftur á móti er gert ráð fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland standi nánast í stað og verði sambærilegur við undanfarin ár.
Það er ljóst að það er stöðug og mikil eftirspurn eftir því að heimsækja Ísland. Það birtist í því að við gerum ráð fyrir álíka mörgum erlendum gestum á næsta ári og við höfum tekið á móti undanfarin ár. Brotthvarf Play hefur auðvitað haft áhrif á framboð á flugi en með markvissri vinnu hefur þó tekist að lágmarka þau, sérstaklega þegar kemur að erlendum gestum.
Grétar Már GarðarssonForstöðumaður flugfélaga og markaðsmála á Keflavíkurflugvelli

Farþegaspá KEF fyrir 2026 gerir ráð fyrir að 7,51 milljónir farþega fari um flugvöllinn á næsta ári samanborið við 8,12 milljón árið 2025. Það er er 7,4% fækkun á heildarfjölda farþega á milli ára, 8,1% yfir sumarmánuðina og 6,0% yfir vetrarmánuðina. Munar þar mestu að tengifarþegum fækkar um 15,3% og að gert er ráð fyrir 13,2% samdrætti á ferðum Íslendinga til útlanda. Brottfarar- og komufarþegum fækkar hins vegar mun minna eða um 4,5%.
„Unnið hefur verið markvisst að því að fylla það skarð sem Play skildi eftir sig en félagið var okkar næststærsta flugfélag. Þó að það hafi ekki enn tekist að fullu sjáum við ýmis jákvæð merki. Til dæmis ef við berum spána saman við rauntölur 2025 án Play sjáum við 5,3% fjölgun heildarfarþega á milli ára. Það sýnir að öðrum flugfélögum gengur vel að fylla í skarðið,“ segir Grétar Már.

Ferðamannaspá KEF horfir bæði til erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland og Íslendinga sem fara erlendis um Keflavíkurflugvöll. Gert er ráð fyrir að 2,24 milljónir erlendra ferðamanna heimsæki Íslandi árið 2026 samanborið við 2,27 á þessu ári, sem er 1,2% breyting á milli ára. Utanlandsferðum Íslendinga mun hins vegar að öllum líkindum fækka töluvert árið 2026. Þær eru áætlaðar 602 þúsund en þær eru 693 þúsund á árinu sem er að líða, sem er 13,2% fækkun á milli ára.
„Það er mjög jákvætt að fjöldi erlendra ferðamanna helst nær óbreyttur. Það er kominn mikill stöðugleiki í fjölda þeirra undanfarin ár, en frá árinu 2023 hefur hann verið á bilinu 2,2 til 2,3 milljónir á ári,“ segir Grétar Már.
Ný flugfélög og nýjar tengingar
Yfir sumarmánuðina munu 27 flugfélög fljúga áætlunarflug til 80 áfangastaða og 20 til 65 áfangastaða yfir vetrarmánuðina. Þegar liggur fyrir að tvö ný flugfélög, Alaska Air og Air Transat, muni hefja áætlunarflug til KEF á nýju ári. Þá bætast við fimm tengingar í Norður-Ameríku og sex í Evrópu. Áætlað er að hlutfall tengifarþega verði 25% sem er nokkuð minna en verið hefur undanfarin ár.
Um farþegaspá KEF
Farþegaspá Keflavíkurflugvallar fyrir 2026 byggir á greiningum og mati á þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn farþega eftir flugi til og frá flugvellinum. Spáin er unnin út frá upplýsingum um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa tryggt sér og upplýsingum úr kerfum Keflavíkurflugvallar til viðbóta við fréttir af áformum flugfélaga.
Farþegatölur eru settar fram í þremur liðum og snúa að brottförum og komum farþega og svo tengifarþegum. Brottfararfarþegar eru þau sem fljúga frá flugvellinum eftir dvöl á Íslandi. Komufarþegar eru þau sem koma til dvalar á Íslandi. Tengifarþegar eru þau sem nýta KEF sem tengistöð, þ.e. koma með einu flugi til flugvallarins og skipta yfir í annað flug án þess að koma inn í landið og eru taldir bæði við komu og brottför.

