Farþegum fjölgaði árið 2024 í KEF

Árið 2024 var annað stærsta ár KEF frá upphafi en alls tók samfélagið á flugvellinum á móti 8,3 milljónum gesta, sem er 7,1% aukning frá árinu á undan. Alls flugu 28 flugfélög frá Keflavíkurflugvelli til 98 áfangastaða og voru Lundúnir vinsælasti áfangastaður ársins. Vinsælasti flugvöllurinn var hins vegar Kastrup í Kaupmannahöfn.

Náttúruhamfarir höfðu áhrif
Tíð eldgos við Sundhnúksgíga höfðu áhrif á eftirspurn eftir ferðum erlendra ferðamanna til landsins. Farþegaspá Keflavíkurflugvallar gerði ráð fyrir 2,4 milljónum erlendra ferðamanna en þeir reyndust vera 2,3 milljónir árið 2024. Erlendum farþegum fjölgaði engu að síður um 2,1% frá árinu 2023. Alls fóru 600 þúsund Íslendingar erlendis á síðasta ári sem er 0,1% aukning á milli ára.

Mikil aukning í tengifarþegum
Tengifarþegar, þ.e. farþegar sem nýta KEF sem tengistöð án þess að dvelja á Íslandi, voru alls 2,58 milljónir talsins, eða 31,1% af heildarfjölda gesta flugvallarins í fyrra. Hlutfallið var 21,2% árið 2023 og sýnir þessi aukning tengifarþega sterka stöðu Keflavíkurflugvallar sem tengistöðvar.
Vinsælustu áfangastaðirnir árið 2024
Í heildina flugu 28 flugfélög til 98 áfangastaða árið 2024. Lundúnir og Kaupmannahöfn voru langvinsælustu áfangastaðir síðasta árs, líkt og árin á undan.
London hefur þá sérstöðu að alls er flogið til fjögurra flugvalla við borgina frá KEF, Heathrow, Gatwick, Stansted og Luton. Sjö flugfélög flugu milli London og KEF; British Airwaves, easyJet, Icelandair, Jet2.com, Play, TUI og Wizz.
Sá flugvöllur sem var oftast flogið til og frá KEF var Kastrup-flugvöllur í Kaupmannahöfn. Alls fljúga þrjú flugfélög þar á milli allan ársins hring sem eru Icelandair, Play og SAS.
.jpg&w=3840&q=80)
Flest flug í ágúst
Mest var að gera á vellinum árið 2024 þann 4. ágúst en þá tók KEF á móti 36.923 gestum. Þar af voru 12.766 tengifarþegar eða 34,6% af heild. Farþegaflug þann daginn voru 224 talsins.
Flestir gestir frá Bandaríkjunum og Bretlandi
Samkvæmt talningu Ferðamálastofu fóru 2,26 milljónir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll, sem er 2,2% aukning frá árinu á undan. Ferðamálastofa telur brottfarir erlendra ferðamanna og voru þær flestar í ágústmánuði eða 281.450.
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir erlendra gesta, en brottfarir þeirra voru alls 620 þúsund, eða 27,4% allra brottfara. Fækkaði þeim um 27 þúsund frá árinu á undan. Næst þar á eftir komu brottfarir breskra farþega, sem voru 266 þúsund, eða 11,8% af heild. Fækkaði breskum ferðamönnum um 18 þúsund á milli ára.

Brottfarir Íslendinga
Brottfarir Íslendinga voru 605.579 árið 2024 eða svipaður fjöldi og árið 2023 þegar brottfarirnar voru um 603 þúsund. Flestar brottfarir voru farnar í júní en þá fóru um 65 þúsund Íslendingar utan. Um er að ræða fjórða stærsta ferðaár Íslendinga þegar kemur að utanlandsferðum en brottfarir þeirra mældust um 619 þúsund árið 2017, 668 þúsund 2018 og 611 þúsund árið 2019.

Spá um farþegafjölda í ár
Farþegaspá KEF 2025 gerir ráð fyrir að gestum flugvallarins muni fjölga á milli ára og verði tæplega 8,4 milljónir. Spáin gerir ráð fyrir að tæplega 2,3 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins um flugvöllinn. Gangi spáin eftir verður árið 2025 það annað stærsta í sögu Keflavíkurflugvallar og það stærsta í komu erlendra ferðamanna til Íslands.