Fjölbreytt störf á Keflavíkurflugvelli kynnt fyrir nemendum

Starfsgreinakynning grunnskólanna á Suðurnesjum var haldin 14. október. Yfir 700 nemendur komu úr 8. og 10. bekk grunnskólanna, auk nemendahóps frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum stendur fyrir árlegri starfsgreinakynningu fyrir nemendur. Kynningin var haldin 14. október í Íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ. Markmið kynningarinnar er að efla starfsfræðslu og menntun grunnskólanemenda.


Starfsmenn úr 11 deildum innan Keflavíkurflugvallar kynntu fyrir nemendum þau fjölbreyttu störf sem eru unnin á flugvellinum. Starfsfólk flugvallarins starfar meðal annars við flugvernd og eftirlit, verkfræði, flugumferðarstjórnun, í flugturni, í flugvallarþjónustu og farþegaakstri. Vöktu kynningar mikla lukku og unga fólkið var duglegt að spyrja betur út í störfin. Mörg fengu að prófa alls kyns búnað og tæki sem tengist störfunum.


Í sjálfbærnistefnu flugvallarins er áhersla lögð á markvissa vinnu með nærsamfélaginu og þátttöku í tækni- og starfsmenntun. Starfsgreinakynningin er mikilvægur liður í að veita ungu fólki innblástur og kærkomið tækifæri fyrir starfsfólk okkar að miðla af þekkingu sinni og reynslu. Hún er einnig mikilvægur þáttur í því að auka starfsvitund og skerpa á framtíðarsýn ungs fólks.
Takk fyrir okkur kæru nemendur sem komu fyrir skemmtilegan og fræðandi dag!



