Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Íslensk tónlist lífgar upp KEF á Airwaves

Í tilefni af Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni fengu gestir Keflavíkurflugvallar (KEF) að njóta lifandi tónlistar í brottfararsalnum með þeim Mána Orrasyni og Kusk & Óvita.

Gestir Keflavíkurflugvallar (KEF) tóku forskot á Iceland Airwaves sæluna miðvikudaginn 5. nóvember, þegar tónlistarfólkið Máni Orrason og Kusk & Óviti skemmtu gestum með mikilli tónlistarveislu.

Kusk & Óviti er raftónlistarpopp dúó sem samanstendur af þeim Kolbrúnu Óskarsdóttur og Hrannari Mána Ólafssyni. Undanfarin ár hafa þau unnið saman sem framleiðendur, lagahöfundar og tónlistarfólk sem sækja innblástur víða t.d. í svefnherbergis-, syntha- og draumapopp og drum & bass. Nýja afurð þeirra er platan Rífast. Að þeirra sögn er þessi nýja plata þeirra töluvert frábrugðin fyrra efni og er ákveðin partýplata.

Raftónlistarpopp dúó-ið Kusk & Óviti

Máni Orrason er söngvari, lagahöfundur og hljóðfæraleikari sem braust fram á sjónarsviðið árið 2014, þá 16 ára gamall, með smáskífuna „Fed All My Days“ sem er á plötunni „Repeating Patterns“. Síðan þá hefur hann gefið út þrjár breiðskífur og spilað víða um heim.

Máni Orrason söngvari, lagahöfundur og hljóðfæraleikari

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin hefur verið haldin í yfir tvo áratugi en hún hóf göngu sína í flugskýli í Reykjavík rétt eftir síðustu aldamót. Síðan þá hefur hátíðin þróast í eina stærstu og mikilvægustu  tónlistarhátíð Íslendinga ár hvert. Á hátíðina mæta bæði íslenskir tónlistarunnendur og fólk frá öllum heimshornum til að sjá heimsklassa tónlistarfólk koma fram á meðan höfuðborgin fyllist af lífi og tónlist.

Iceland Airwaves er mikilvægur kynningarvettvangur fyrir íslenska tónlist en Keflavíkurflugvöllur leggur mikla áherslu á að bæta sérkennum Íslands við flugvöllinn og því vel við hæfi að halda Airwaves tónlistarveislu fyrir gesti vallarins.

Árið 2025 fer tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fram dagana 6.-8. nóvember í miðbæ Reykjavíkur með ferskustu tónlist í heimi. Gleðilega Iceland Airwaves hátíð!