Íslensk tónlist lífgar upp KEF á Airwaves

Gestir Keflavíkurflugvallar (KEF) tóku forskot á Iceland Airwaves sæluna miðvikudaginn 5. nóvember, þegar tónlistarfólkið Máni Orrason og Kusk & Óviti skemmtu gestum með mikilli tónlistarveislu.
Kusk & Óviti er raftónlistarpopp dúó sem samanstendur af þeim Kolbrúnu Óskarsdóttur og Hrannari Mána Ólafssyni. Undanfarin ár hafa þau unnið saman sem framleiðendur, lagahöfundar og tónlistarfólk sem sækja innblástur víða t.d. í svefnherbergis-, syntha- og draumapopp og drum & bass. Nýja afurð þeirra er platan Rífast. Að þeirra sögn er þessi nýja plata þeirra töluvert frábrugðin fyrra efni og er ákveðin partýplata.



Máni Orrason er söngvari, lagahöfundur og hljóðfæraleikari sem braust fram á sjónarsviðið árið 2014, þá 16 ára gamall, með smáskífuna „Fed All My Days“ sem er á plötunni „Repeating Patterns“. Síðan þá hefur hann gefið út þrjár breiðskífur og spilað víða um heim.



Iceland Airwaves tónlistarhátíðin hefur verið haldin í yfir tvo áratugi en hún hóf göngu sína í flugskýli í Reykjavík rétt eftir síðustu aldamót. Síðan þá hefur hátíðin þróast í eina stærstu og mikilvægustu tónlistarhátíð Íslendinga ár hvert. Á hátíðina mæta bæði íslenskir tónlistarunnendur og fólk frá öllum heimshornum til að sjá heimsklassa tónlistarfólk koma fram á meðan höfuðborgin fyllist af lífi og tónlist.

Iceland Airwaves er mikilvægur kynningarvettvangur fyrir íslenska tónlist en Keflavíkurflugvöllur leggur mikla áherslu á að bæta sérkennum Íslands við flugvöllinn og því vel við hæfi að halda Airwaves tónlistarveislu fyrir gesti vallarins.
Árið 2025 fer tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fram dagana 6.-8. nóvember í miðbæ Reykjavíkur með ferskustu tónlist í heimi. Gleðilega Iceland Airwaves hátíð!


