Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Jómfrúarflug Icelandair til Miami

Fyrsta flugi Icelandair til Miami í Flórída var fagnað á Keflavíkurflugvelli um helgina.

Flugfélagið Icelandair flaug sína fyrstu ferð til Miami laugardaginn 25. október. Af því tilefni var blásið til veglegrar veislu á Keflavíkurflugvelli þar sem ljúfir tónar, veitingar, kaka og drykkir voru í boði fyrir gesti á leiðinni í háloftin.

Við á Keflavíkurflugvelli gleðjumst í hvert sinn sem nýir áfangastaðir bætast við hjá okkar flugfélögum, enda styrkir það stöðu KEF og Íslands sem tengipunkts milli heimsálfa.

Guðmundur Daði RúnarssonFramkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á KEF

„Nú bætist við spennandi áfangastaður í Bandaríkjunum sem opnar ný tækifæri bæði fyrir íslenska ferðalanga og gesti sem vilja sækja Ísland heim. Eins og ACI Europe, Evrópudeild Alþjóðasamtaka flugvalla, hefur bent á, stuðla auknar flugtengingar að hagvexti. Hver nýr áfangastaður eflir tengsl Íslands við heiminn á öllum sviðum mannlífsins,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli.

Icelandair hefur bætt nýjum áfangastað við leiðakerfi sitt, Miami í Flórídaríki í Bandaríkjunum. Flogið verður til borgarinnar þrisvar í viku, á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum, frá 25. október og út mars 2026. Flugtími til Miami er um það bil átta klukkustundir með nýjum Airbus A321LR-vélum félagsins.

Sól­rík og litrík borg

Flórída hefur lengi verið vinsæll vetraráfangastaður Íslendinga en Icelandair hefur um áratugaskeið flogið til Orlando. Nú bætist Miami við leiðakerfi félagsins sem 19. áfangastaðurinn í Norður-Ameríku. Borgin er þekkt fyrir fallegar strendur, litríka menningu, fjörugt næturlíf og suðrænt loftslag.

Borgin er margbreytileg og ein þekktasta gata Miami er Calle Ocho og Historic Overtown er eitt af elstu hverfum borgarinnar. Á South Beach-svæðinu blómstrar svo næturlífið og á Miami Beach má finna sólríkar strendur. Salsatónlistin hljómar á götum Litlu-Havana, innan um byggingar og minnisvarða sem eru til vitnis um sterk undirtök kúbanskrar menningar.

Fjöldi nýrra áfanga­staða

Miami er fimmti nýi áfangastaðurinn sem Icelandair hefur bætt við leiðarkerfi sitt í vetur. Auk þess flýgur Icelandair beint frá KEF til Istanbúl, Malaga, Edinborgar og Nasville yfir vetrartímabilið.

Við erum afar ánægð með að hefja flug til Miami og bjóða farþegum okkar upp á nýjan og spennandi áfangastað í Flórída. Nýju Airbus vélarnar opna tækifæri til þess að bæta við spennandi áfangastöðum og Miami er frábært dæmi um það. Flugið opnar einnig fjölbreyttar tengingar fyrir farþega frá Miami til 38 áfangastaða okkar í Evrópu, um Ísland, og öfugt.

Bogi Nils BogasonForstjóri Icelandair
Bogi Nils Bogason

Miami er 19. áfangastaður Icelandair í Norður-Ameríku og annar áfangastaður félagsins í Flórída, en félagið hefur um árabil boðið upp á flug til Orlando.