Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

KEF færir börnum töfraheim Tulipop

Íslenska fyrirtækið Tulipop mun hanna nýtt leiksvæði fyrir börn á Keflavíkurflugvelli (KEF).

Verkefnið er samstarfsverkefni Tulipop, hönnunarteymisins ÞYKJÓ og IRMA hönnunarstúdíós, og hefur það að markmiði að leiða yngstu gesti flugvallarins inn í töfraheim Tulipop. Leikvöllurinn verður staðsettur í nýrri austurálmu og mun opna fyrir sumarið.

Skemmti­legri stað­ur fyr­ir yngstu gest­ina

Flestir landsmenn þekkja ævintýraheim Tulipop en fyrirtækið var stofnað árið 2010 og er hugarfóstur hönnuðarins Signýjar Kolbeinsdóttur og Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Ævintýri Tulipop byggja á litríkum og líflegum töfraheimi þar sem skemmtilegar fígúrur lifa og hrærast. Stærsta verkefni Tulipop til þessa er framleiðsla 52 þátta teiknimyndaþáttaraðarinnar „Ævintýri Tulipop“ sem er sýndur víða um heim.

Markmið leiksvæðisins er að gera flugvöllinn að enn skemmtilegri stað fyrir yngstu gestina. Hönnun leikrýmisins miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í frjálsum leik.

Leiksvæðið verður sett upp í nýrri austurálmu flugvallarins, við endann á veitingasvæðinu Aðalstræti áður en gengið er inn í austurbygginguna.

Ein­stök upp­lif­un byggð á ís­lensku hug­viti

„Við erum virkilega spennt fyrir því að fá að hanna leiksvæði fyrir börnin á Keflavíkurflugvelli. Síðustu 15 árin höfum við leitast eftir því að skapa töfrandi myndheim og sögur fyrir börn sem byggja á íslensku hugviti. Það er ótrúlega gaman að fá að færa þennan ævintýraheim inn á leiksvæði barnanna á KEF í samstarfi við ÞYKJÓ og IRMA sem eru gífurlega fær á sínum sviðum. Svo er auðvitað spennandi að kynna börn frá öllum heimshornum fyrir töfrum Tulipop,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop.

Einnig verður sett upp nálægt leiksvæðinu svokallað iWall frá CSE Entertainment frá Finnlandi, sem eru gagnvirk leiktæki fyrir mestu fjörkálfana. Leiktækið býður gestum upp á þann möguleika að stíga beint inn í ævintýrið og verða hluti af leiknum, en um er að ræða frábæra leið til að hreyfa sig og láta tímann fljúga.

Við viljum að KEF sé staður þar sem ferðalagið byrjar á skemmtilegri upplifun fyrir alla – líka börnin. Með Tulipop-leiksvæðinu höldum við áfram að bæta við sérkennum Íslands á vellinum og færum yngstu gestum okkar kunnuglegan töfraheim sem kveikir ævintýraandann og leikgleðina

Jón Cleon Deildarstjóri markaðsmála og upplifunar á Keflavíkurflugvelli

Um Tuli­pop, IRMA og ÞYKJÓ

Tulipop er, sem áður segir, hugarfóstur Signýjar Kolbeinsdóttur, hönnuðar Tulipop, og Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, sem stofnuðu saman Tulipop árið 2010.

ÞYKJÓ er þverfaglegt hönnunarteymi og miðar þeirra hönnunarstarf að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í frjálsum leik.

IRMA er hönnunarstúdíó sem rekur sitt eigið framleiðsluverkstæði og sérhæfir sig meðal annars í leikmyndagerð, leikmyndasmíði og hönnun.

Meðfylgjandi mynd frá ÞYKJÓ