Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Keflavíkurflugvöllur áfram styrktaraðili Ljósanætur

Keflavíkurflugvöllur er einn aðalstyrkaraðili fjölskyldu- og menningarhátíðarinnar Ljósanætur árið 2025.

Fjölskyldu- og menningarhátíðin Ljósanótt er haldin árlega í Reykjanesbæ og mun Keflavíkurflugvöllur (KEF) halda áfram að vera einn helsti styrktaraðili hátíðarinnar í ár. Framlagið er liður í því að styðja við metnaðarfullt starf á ýmsum sviðum samfélagsins þannig að það dafni og fái að njóta sín.

Há­tíð með ræt­ur og hefð­ir

Ljósanótt er árleg fjölskyldu- og menningarhátíð í Reykjanesbæ sem hefst í ár fimmtudaginn 4. september og lýkur sunnudaginn 7. september. Hátíðin er nú haldin í 24. sinn og er lögð áhersla á fjölbreytta skemmtun þar sem menning er höfð í hávegi. Hafa tónlist og myndlist jafnan verið þar í fararbroddi enda Reykjanesbær annálaður tónlistarbær.

Ljósanótt dregur nafn sitt af lýsingu á sjávarhömrunum „Berginu“ sem blasir við frá hátíðarsvæðinu. Lýsingin var afhjúpuð á fyrstu Ljósanóttinni árið 2000 og hefur allar götur síðan verið táknrænn hápunktur hátíðarinnar, ásamt stórtónleikum og flugeldasýningu á loka kvöldinu.

Fars­sælt sam­starf

Styrktar samningar við aðalstyrktaraðila Ljósanætur 2025, svokallaða Ljósbera, voru undirritaðir í vikunni. Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og markaðsmála, og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, undirrituðu samstarfssamning KEF og Reykjanesbæjar um fjárhagslegan stuðning við Ljósanótt.

Það er ómetanlegt þegar fyrirtæki á svæðinu láta sig samfélagið varða. Fjöldi íbúa starfar hjá þessum fyrirtækjum og sýnilegur stuðningur þeirra styrkir bæði traust og stolt starfsfólks. Það er alltaf ánægjulegt þegar allir leggja sitt af mörkum svo vel megi takast til.

Halldóra Fríða ÞorvaldsdóttirBæjarstjóri í Reykjanesbæ

Með stuðningi sínum taka Ljósberarnir virkan þátt í að auðga bæjarlífið og styrkja um leið þá þætti sem eru órjúfanlegur hluti þess að skapa starfsmönnum og viðskiptavinum eftirsóknarvert umhverfi til að lifa og starfa í.

Nánar má lesa um dagskrána á ljosanott.is.