Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

RIFF lendir á KEF

Í tilefni af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) geta gestir Keflavíkurflugvallar nú notið einstakrar ljósmyndasýningar eftir Pál Stefánsson í brottfararsalnum.

Sýningin er samstarfsverkefni RIFF og 66°Norður en á henni má sjá fallegar landslagsljósmyndir sem Páll hefur tekið á innlendum tökustöðum fyrir þekktar erlendar kvikmyndir.

Ljósmyndarinn Páll Stefánsson á heiðurinn af ljósmyndunum og spannar ferill hans meira en fjóra áratugi. Páll nam ljósmyndun í Svíþjóð á árunum 1979-1982. Hann hefur gefið út fjölda bóka með ljósmyndum af íslenskri náttúru, myndað fyrir mörg af þekktustu tímaritum heims og fengið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Páll myndar allan ársins hring í öllum veðrum og ljósmyndir hans af Íslandi sýna lítt þekkt og framandi land.

Ljósmyndirnar sem eru til sýnis á Keflavíkurflugvelli eru meðal annars frá tökustöðum á Fjallabaki þar sem ofurhetjumyndin Thor: The Dark World var tekin upp árið 2013. Auk þess sem þær sýna frá tökustað tveggja kvikmynda úr smiðju leikstjórans Christopher Nolan sem voru teknar hér á landi: Batman Begins (2005) sem var tekin upp við Svínafellsjökul og Interstellar (2014) sem var tekin upp á Þingvöllum. Þá má sjá á sýningunni ljósmynd af Heklu þar sem vísindaskáldskapar-hryllingsmyndin Prometheus (2012) í leikstjórn Ridley Scott var tekin upp.

RIFF er haldin hátíðleg í Reykjavík í 22. sinn dagana 25. september – 5. október. Ljósmyndasýningin er opin á Keflavíkurflugvelli meðan á hátíðinni stendur, auk þess sem ljósmyndirnar eru einnig til sýnis í anddyri Háskólabíós.

Um RIFF

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) er stærsta kvikmyndahátíð landsins sem haldin verður í 22. sinn frá 25. september til 5. október 2025. Hátíðin hefur verið haldin árlega í Reykjavík frá árinu 2004 og stendur yfir í ellefu daga.