Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

WestJet bætir við sumaráætlun sína til Íslands

Kanadíska flugfélagið WestJet hefur bætt við tveimur nýjum kanadískum áfangastöðum við áætlun sína til Keflavíkurflugvallar sumarið 2026.

Kanadíska flugfélagið WestJet hefur bætt við tveimur nýjum kanadískum áfangastöðum við áætlun sína til Keflavíkurflugvallar sumarið 2026. Flogið verður einu sinni í viku á milli KEF og Edmonton frá 27. júní á næsta ári og milli KEF og Winnipeg frá 28. júní. Áður hafði WestJet tilkynnt að flogið yrði aftur milli KEF og Calgary fjórum til sex sinnum í viku frá 17. maí til 14. október næsta sumar.

Edmonton í Alberta-fylki er einkum þekkt fyrir skemmtileg hátíðarhöld og þar á stærsta verslunarmiðstöð Norður-Ameríku heima.
Winnipeg í Manitóba-fylki er líklegast þekktust fyrir að vera heimastaður þúsunda Íslendinga sem á árum áður héldu vestanhafs.

WestJet flýgur á Boeing 737MAX vélum milli KEF og áfangastaðanna þriggja. Félagið bættist í hóp flugvallarsamfélagsins á KEF í fyrravor og styrkir enn sambandið með öflugri endurkomu sinni nú í sumar.

WestJet flýgur á Boeing 737MAX vél til og frá KEF.

John Weatherill, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs hjá WestJet, segir að með því að bæta við beinni flugtengingu á milli Edmonton og Íslands staðfesti félagið þá skuldbindingu að viðhalda sterkum alþjóðatengingum fyrir íbúa Alberta-fylkis. Þá gegni Winnipeg einnig mikilvægu hlutverki fyrir WestJet. „Eins og Winnipeg hefur gegnt mikilvægu hlutverki í sögu WestJet hefur þessi flugleið sérstaka þýðingu fyrir hið fjölmenna íslenska samfélag í Manitoba.“

Það er sannarlega spennandi að sjá WestJet efla viðveru sína á Íslandi með því að hefja beint flug milli Keflavíkur og tveggja nýrra áfangastaða, Edmonton og Winnipeg. Þessi ákvörðun endurspeglar sterka trú flugfélagsins á íslenska markaðinum og eflir enn frekar tengingar milli Norður-Ameríku og Íslands. Við hlökkum til að taka á móti farþegum WestJet og teljum að þessar nýju flugleiðir verði aðlaðandi kostur fyrir Íslendinga sem hyggjast ferðast yfir Atlantshafið og jafnvel heimsækja ættingja í Winnipeg.

Guðmundur Daði RúnarssonFramkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli.
Þrír áfangastaðir WestJet í Kanada verða aðgengilegir farþegum til og frá Íslandi með beinu flugi sumarið 2026.