Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Yfir 655 þúsund gestir í október

Við tókum á móti 655.572 gestum á Keflavíkurflugvelli (KEF) í október 2025.

Októbermánuður var viðburðaríkur á Keflavíkurflugvelli en í lok mánaðarins snjóaði óvenjumikið sem hafði áhrif á flugferðir frá landinu vegna snjókomu. Gestir sem lögðu leið sína um flugvöllinn í október voru alls 655.572 talsins. Það gerir 8,3% færri gestir en í október árið á undan.

Alls flugu 26 flugfélög til 67 áfangastaða beint frá KEF í október. Vinsælustu áfangastaðirnir voru London, Kaupmannahöfn, New York, Amsterdam og París.

Mest var að gera í októbermánuði þann 5. október þegar 25.737 gestir fóru um flugvöllinn.

Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu voru brottfarir Íslendinga frá landinu um 56 þúsund í október. Það gerir 3% fleiri en í sama mánuði árið á undan. Frá áramótum hafa Íslendingar farið utan um 613 þúsund sinnum, sem er 18,0% aukning frá sama tíma í fyrra.

Brottfarir erlendra gesta frá landinu voru um 200 þúsund í október. Það gerir 6,2% færri en í október 2024. Flestar brottfarir erlendra gesta voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna sem voru um 53 þúsund eða 27% af heild. Bretar voru í öðru sæti með um 23 þúsund brottfarir (12% af heild), Kínverjar voru í þriðja sæti með tæplega 15 þúsund brottfarir (7% af heild), þar á eftir fylgdu Þjóðverjar (7% af heild) með um 13 þúsund brottfarir og loks Frakkar (4% af heild) með rúmlega 7 þúsund brottfarir.