Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn er tilnefnd til stjórnarsetu af fjármála- og efnahagsráðherra og er kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Í henni sitja fimm einstaklingar og tveir til vara.

Steinþór Pálsson, stjórnarformaður

Steinþór Pálsson er stjórnarformaður frá 2025. Hann er með Cand. Oecon gráðu frá Háskóla Íslands og MBA frá Edinborgarháskóla. Steinþór hefur víðtæka reynslu og þekkingu í atvinnulífinu sem leiðtogi og stjórnandi, s.s. í stefnumótun, fjármálum, rekstri og breytingastjórnun.

Hann er nú stjórnarmaður í Norvik, formaður verkefnisstjórnar ÍL-sjóðs, formaður Styrktarsjóðs Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og í stjórn Golfklúbbs Mosfellsbæjar.

Steinþór var ráðgjafi og meðeigandi hjá KPMG á árunum 2018 - 2022, bankastjóri Landsbankans 2010 - 2016, framkvæmdastjóri hjá Actavis í 8 ár bæði hér á landi og erlendis, stjórnandi hjá Íslandsbanka og Verslunarbanka í um 15 ár og stjórnandi hjá fleiri fyrirtækjum um skemmri tíma. Steinþór hefur auk þess setið í stjórnum ýmissa annarra fyrirtækja og samtaka þeirra.

Hera Grímsdóttir

Hera Grímsdóttir tók sæti í stjórn Isavia í mars 2025 og er varaformaður stjórnar. Hera er framkvæmdastjóri Rannsókna- og nýsköpunarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur. Hera er með M.Sc.-gráðu í byggingarverkfræði með sérhæfingu í framkvæmdastýringu og ákvörðunartöku, auk MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún býr yfir víðtækri reynslu af stjórnun og stefnumótun úr fjölbreyttum geirum íslensks atvinnulífs.

Á árunum 2018–2022 var Hera forseti iðn- og tæknifræðideildar við Háskólann í Reykjavík. Áður hafði hún gegnt starfi sviðsstjóra byggingarsviðs skólans og kennt meðal annars verkefnastjórnun og stefnumótun. Hera hefur yfirgripsmikla þekkingu á umbótaferlum og verkefnastjórnun í flóknum og alþjóðlegum verkefnum. Á árunum 2011–2015 starfaði hún hjá Össuri, og þar á undan hjá verkfræðistofunni Eflu, fyrst á orkusviði og síðar á framkvæmdasviði. Hera hefur einnig setið í stjórnum tengdum tækni, nýsköpun og fasteignaþróun, þar á meðal hjá Veitum, Grænvangi og Innov fasteignaþróunarfélagi.

Marta Jónsdóttir

Marta Jónsdóttir hefur verið stjórnarmaður frá ársbyrjun 2025 eftir að hafa setið í varastjórn Isavia árið 2024. Marta er lögfræðingur með ML-gráðu í lögfræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst frá árinu 2006, og B.Sc. í viðskiptalögfræði frá sama skóla frá árinu 2004.

Hún var framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., framkvæmdastjóri Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi sf., starfaði hjá Innanríkisráðuneytinu þar sem hún fór með umferðarmál, var yfirlögfræðingur Umferðarstofu, deildarstjóri hjá Samgöngustofu og var verkefnastjóri þinglýsingadeildar hjá sýslumanninum í Reykjavík. Frá árinu 2021 hefur Marta starfað sjálfstætt, einkum við lögfræðiráðgjöf, sáttamiðlun og fasteignatengd verkefni. Marta hefur sótt sér ýmsa viðbótarmenntun og starfsréttindi, s.s. nám í samningatækni við Harvard Business School, löggildingu sem fasteigna- og skipasali, og setið námskeið í sáttamiðlun.

Marta hefur auk þess setið í fjölda stjórna, s.s. í stjórn Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, og Markaðsstofu Suðurnesja, Í stjórn Fluglestarinnar – þróunarfélags ehf., hún var formaður umferðaröryggisáætlunarteymis samgönguáætlunar , varaformaður Umferðarráðs og ýmissa nefnda á sviði samgangna, bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, s.s. Working Group on Transport hjá EFTA. Þá er hún í yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis.

Gréta María Grétarsdóttir

Gréta María Grétarsdóttir tók sæti í stjórn Isavia í mars 2025. Gréta er verkfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er með yfir 20 ára reynslu í rekstri og fjármálum og hefur starfað sem forstjóri og framkvæmdastjóri í ýmsum atvinnugreinum.

Gréta María er forstjóri Atlögu og framkvæmdastjóri Prís frá 2023. Áður starfaði Gréta María m.a. sem forstjóri Arctic Adventures, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim, framkvæmdastjóri Krónunnar, fjármálastjóri Festi og forstöðumaður Hagdeildar Arion Banka.

Gréta María hefur einnig setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og þar á meðal Indó sparisjóðs, Reitum fasteignafélagi, Rauða krossinum ásamt því að vera fyrsti formaður Matvælasjóðs og leitt uppbyggingu hans. Þá hefur hún starfað sem ráðgjafi og leiðbeinandi í viðskipta- og nýsköpunarhröðlum, þar sem hún deilir sinni dýrmætu reynslu og innsýn með frumkvöðlum og stjórnendum.

Ómar Svavarsson

Ómar Svavarsson tók sæti í stjórn Isavia í mars 2025. Ómar er menntaður viðskiptafræðingur og lauk Cand. Oecon gráðu frá Háskóla Íslands árið 1995. Hann hefur yfir 25 ára stjórnunarreynslu, þar af 12 ár sem forstjóri. Hann starfaði um árabil hjá Sjóvá í ýmsum stjórnunarstöðum og gegndi þar lengst starfi framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs. Árið 2005 hóf hann störf hjá Vodafone og var ráðinn forstjóri félagsins árið 2009, þar sem hann starfaði til ársins 2014. Frá 2017 til 2024 var hann forstjóri Securitas hf. og hefur síðan þá starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi og rekið eigið fyrirtæki.

Ómar hefur gegnt fjölmörgum stjórnarstörfum. Hann sat í stjórn fjarskiptafyrirtækisins Kall p/f frá árinu 2006-2014 og var stjórnarformaður hjá FøroyaTele á árunum 2015–2021. Frá árinu 2024 hefur hann verið stjórnarmaður hjá Orku náttúrunnar.

Varastjórn

  • Sigrún Dóra Sævinsdóttir
  • Bjarni Herrera

Stjórn­ar­hætt­ir

Isavia ohf. er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um starfsemi félagsins gilda lög nr. 65/2023 um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð og lög um loftferðir nr. 80/2022.

Stjórnarhættir félagsins taka mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar. Félagið fylgir almennri eigandastefnu ríkisins sem gefin var út í september 2021, ásamt viðauka er snýr að Isavia ohf.

Stjórn félagsins hefur „Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja“ til hliðsjónar í störfum sínum og uppfyllir þær í öllum meginatriðum þrátt fyrir að félaginu beri ekki að fylgja leiðbeiningunum lögum samkvæmt. Helsta frávik er að ekki er starfandi tilnefningarnefnd hjá félaginu þar sem tilnefningar í stjórn félagsins er hjá Fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með hlut ríkisins í félaginu. Undirnefndir stjórnar eru endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd. Starfssvið endurskoðunar og starfskjaranefndar nær einnig til dótturfélaga Isavia ohf.

Störf og starfsreglur stjórnar

Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem helstu verkefni og valdsvið stjórnar og forstjóra eru skilgreind. Starfsreglur eru endurskoðaðar og samþykktar á hverju ári. Þar er m.a. að finna skiptingu starfa innan stjórnar, reglur um hæfi stjórnarmanna til þátttöku í afgreiðslu mála, um fundarsköp og fundargerðir, reglur um þagnarskyldu, upplýsingagjöf gagnvart stjórn og ákvörðunarvald stjórnar.

Stjórnin hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda samkvæmt lögum og samþykktum félagsins. Meginhlutverk stjórnar er að stýra félaginu milli hluthafafunda og tryggja að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins auk þess að staðfesta rekstrar- og fjárfestingaáætlanir og sjá til þess að þeim sé fylgt. Stjórn tekur meiriháttar ákvarðanir í rekstri félagsins og sér um að félagið sé rekið í samræmi við lög og reglur sem félaginu ber að fylgja. Þá hefur starf stjórnar það að markmiði að stuðla að viðgangi félagsins og tryggja árangur þess til langs tíma litið með því að setja félaginu stefnu í samstarfi við stjórnendur þess.

Árangursmat

Stjórn metur störf sín með reglubundnum hætti, verklag og starfshætti, framgang félagsins, frammistöðu forstjóra svo og skilvirkni undirnefnda séu þær starfandi. Slíkt árangursmat felur m.a. í sér að stjórnin leggi mat á styrkleika og veikleika í störfum sínum og verklagi og hugi að þeim hlutum sem hún telur að betur megi fara.

Áhættustýring og innra eftirlit

Stjórn hefur sett fram heildstæða áhættustefnu fyrir félagið þar sem helstu áhættuþættir í rekstri hafa verið skilgreindir. Áhættustefnan byggir á heildarstefnu Isavia og er til þess ætluð að styðja við stefnu og sett markmið. Tilgangurinn með áhættustefnu Isavia er að tryggja virka áhættustjórnun og góða áhættumenningu. Áhættustýring Isavia byggir á hugmyndafræði heildstæðrar áhættustjórnunar (e. enterprise risk management). Notast er við viðurkenndar aðferðir við áhættugreiningar og áhættumat og unnið er að samræmdu ferli fyrir móður- og dótturfélög. Hjá félaginu er starfandi áhættunefnd og er markmið hennar að tryggja að skipulag og framkvæmd áhættustýringar sé til samræmis við stefnu stjórnar. Verkefni nefndarinnar taka til yfirsýnar og eftirlits með áhættustýringu félagsins. Í áhættunefnd sitja forstjóri, framkvæmdastjóri fjármála og mannauðs, áhættustjóri og sérfræðingur í áhættustýringu. Framkvæmdastjórar bera ábyrgð á að draga fram, skilgreina og meta áhættu innan síns sviðs sem og að koma á viðeigandi stýringu til að lágmarka áhættu.

KPMG ehf. sér um innri endurskoðun samstæðunnar, samkvæmt samningi, sem m.a. leggur mat á áhættustýringu, eftirlitsaðferðir og stjórnarhætti með kerfisbundnum aðferðum og styður þannig félögin við að ná markmiðum sínum.

Endurskoðun

Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga félagsins og dótturfélaga þess í samræmi við c-lið 1.mg.4.gr.laga nr 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.

Undirnefndir stjórnar

Endurskoðunarnefnd

  • Auður Þórisdóttir, löggitur endurskoðandi, formaður
  • Gréta María Grétarsdóttir
  • Ómar Svavarsson

Starfskjaranefnd

  • Steinþór Pálsson, stjórnarformaður Isavia
  • Marta Jónsdóttir