Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Tæplega 8,5 milljónir farþega munu ferðast um Keflavíkurflugvöll (KEF) á næsta ári samkvæmt farþegaspá flugvallarins fyrir árið 2024. Spáin gerir ráð fyrir að tæplega 2,4 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins um flugvöllinn. Gangi spáin eftir verður árið 2024 það þriðja stærsta í sögu Keflavíkurflugvallar og það stærsta í komu erlendra ferðamanna til Íslands. 

„Við hlökkum til að taka á móti fleiri gestum á næsta ári. Við höfum fjárfest í þróun flugvallarins undanfarin ár og það er byrjað að skila sér í bættri aðstöðu fyrir farþega og starfsfólk,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Spáin bendir einnig til þess að fjölgun farþega, sem og erlendra ferðamanna, verði hlutfallslega meiri en áður yfir vetrarmánuðina en sumarmánuðina. Það mun styðja við betri og jafnari nýtingu á flugvellinum yfir allt árið og á innviðum ferðaþjónustunnar.“ 

Farþegaspá KEF fyrir 2024 gerir ráð fyrir að 8,49 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll, sem er 9,6% aukning frá þeim 7,74 milljónum sem fara um flugvöllinn í ár. Aðeins tvisvar hafa farþegarnir verið fleiri, 8,8 milljónir 2017 og 9,8 milljónir 2018. Yfir sumarmánuðina munu 25 flugfélög fljúga áætlunarflug til 82 áfangastaða og 20 flugfélög til 69 áfangastaða yfir vetrarmánuðina. 

Ef horft er til þeirra mánaða sem skilgreindir eru sem vetrarmánuðir á KEF, það er janúar, febrúar, mars, nóvember og desember, er gert ráð fyrir að farþegum fjölgi um 15,2% eða um 354 þúsund. Yfir sumarmánuðina, apríl til október, er gert ráð fyrir að farþegum fjölgi um 391 þúsund sem er 7,2% aukning á milli ára.  

Spáin gerir ráð fyrir að hlutfall tengifarþega verði um 30% af heildar farþegafjölda á næsta ári en til samanburðar er það um 27% í ár. Það þýðir að hærra hlutfall af heildarfarþegafjölda mun nýta KEF sem tengistöð án þess að dvelja á Íslandi. Hlutfall tengifarþega fór mest árið 2018 þegar það var um 40%.