Öryggisleit
Farþegar bera ábyrgð á eigum sínum. Gakktu úr skugga um að hlutir passi í bakkann. Ef ekki, skaltu nota annan.
Fyrir öryggisleit:
Brottfaraspjald: Byrjaðu á því að skanna brottfaraspjaldið þitt fyrir framan öryggisleitina.
Þekktu reglurnar: Kynntu þér helstu reglur öryggisleitar fyrir ferðalagið.
Undirbúningssvæði: Losaðu þig við óþarfa vökva eða hluti sem má ekki taka með í gegnum öryggisleitina. Þar má einnig finna plastpoka fyrir vökva sem þú ætlar að taka með þér í gegnum öryggisleitina.
Oddhvassir hlutir bannaðir.
Hvað má hafa með í handfarangri?
Vökvi
- Að hámarki 100 ml per einingu.
- Allur vökvi verður að vera í glærum lokuðum poka.
- Heildarmagnið í pokanum þarf að vera undir 1 lítra.
- Pokinn með vökva á að fara úr handfarangurstöskunni og í bakkann.
Raftæki
- Fartölvur, símar, spjaldtölvur, snjallúr og önnur stærri raftæki fara í bakka sem er svo skannaður.
- Rafsígarettur fara í handfarangurstöskuna (ekki í innritaðan farangur).
Persónulegir munir
- Yfirhöfn, belti og ýmsir munir í vösum eiga að fara í þar til gerðan bakka sem er skannaður.
- Mögulega þarftu að fara úr skónum til að komast í gegnum öryggisleitina.
Ef bannaðir hlutir eða aðrir hlutir sem ekki má hafa meðferðis finnast í handfarangri er þér gefinn kostur á að innrita hlutina svo framarlega sem þeir mega fara í flug. Aðstaða til að geyma bannaða hluti er ekki fyrir hendi á Keflavíkurflugvelli.
Allur innritaður farangur fer í gegnum röntgenskoðun. Ef nauðsyn krefur, gæti þurft að opna töskur til frekari skoðunar. Pakkaðu farangrinum þínum vandlega til að auðvelda skoðun og koma í veg fyrir að innihald detti út. Ekki er tekin ábyrgð á hlutum sem falla úr farangri við þessar aðstæður.
Eftir öryggisleit
- Tollfrjáls kaup: Það er nóg úrval af verslunum og veitingastöðum í KEF þar sem er hægt að gera góð kaup á betra verði.
- Tengiflug: Ef þú ert á leiðinni í tengiflug með vökva sem þú verslaðir í KEF er mikilvægt að setja vökvann í lokaðan poka með kvittun. Ekki opna pokann fyrr en komið er á áfangastað.
Algengar spurningar
Undir vökva flokkast m.a. gel, krem, smyrsl, og úðaefni, hvort sem er í flöskum, þrýstibrúsum, túpum eða öðrum umbúðum. Algengir hlutir sem fólk hefur með sér og flokkast undir vökva eru m.a.: Gos, áfengi, ilmvatn, rakakrem, tannkrem, varagloss, hárlakk, sjampó, sápur, sólarolía, mjúkir ostar ( til dæmis Camembert).
Hver eining umbúða má að hámarki rúma 100 millilítra (1dl) af vökva. Allar umbúðir verða að rúmast í gegnsæjum eins (1) lítra endurlokanlegum plastpoka sem hægt er að loka með plastrennilás. Hverjum farþega er heimilt að hafa með sér einn poka. Með umbúðum er átt við flöskur, túpur, hylki og annað sem getur innihaldið vökva.
Öll lyf í föstu formi, pillur, duft og hylki, eru leyfileg. Lyf í vökvaformi sem þú þarft nauðsynlega að hafa með þér í fluginu eru leyfileg en gætu þurft að fara í vökvaskimunarvél ef umbúðirnar rúma meira en 100 ml. Taka þarf öll lyf í vökvaformi úr töskunni áður en hún fer í gegnumlýsingarvélina.
Já, fæðubótarefni líkt og kreatín og prótein má taka í handfarangri. Sé fæðubótarefnið í vökvaformi þá gilda sömu reglur og með aðra vökva. Magn vökva má ekki vera yfir 100ml.
Það er heimilt sé það ætlað til notkunar í fluginu og magnið ekki umfram það sem eðlilegt getur talist.
Heimilt er að taka með linsuvökva í að hámarki 100 ml umbúðum.
Já það er leyfilegt að taka með sléttujárn í handfarangri.
Rafsígarettur eru AÐEINS leyfðar í handfarangri, athugið að jafnframt er bannað að hlaða rafsígarettur um borð í flugvélum. Rafsígarettuvökvi fellur undir hina almennu vökvareglu að enginn vökvi má vera í meira en 100ml íláti og verður að komast í 1L zip lock poka ásamt öðrum vökva sem þú ert að ferðast með.
Barnamatur er leyfilegur svo lengi sem barnið er með í för. Hann gæti þó lent í úrtaksleit og þarf þá að fara í gegnum vökvaskimunarvél. Móðir sem hefur meðferðis brjóstamjólk en barnið er ekki með í för fær undanþágu og fer mjólkin í vökvaskimunarvél í öryggisleitinni. Barnamat og brjóstamjólk þarf að taka upp úr töskunni áður en hún fer í gegnumlýsingarvélina.
Páskaegg eru leyfileg svo lengi sem þau innihalda enga vökva yfir 100ml.
Matur í föstu formi ( t.d. lambalæri, fiskur og hamborgarahryggur) er leyfilegur í handfarangri. Ef þú ert að ferðast með mikið magn af mat væri þægilegast að taka eitthvað af honum upp úr töskunni áður en taskan fer í gegnumlýsingarvélina.
Þrífætur eru leyfilegir en verkfæri sem fylgja þeim þarf að innrita.
Prjónar eru almennt ekki bannaðir í handfarangri. Það er þó mismunandi eftir flugvöllum og ef um tengiflug er að ræða gætu farþegar með prjóna eða aðra oddhvassa hluti fengið athugasemdir vegna þeirra. Flugverndarstarfsmönnum er heimilt, samkvæmt reglugerð, að gera athugasemdir og neita farþegum um að halda áfram með hluti sem þeir telja grunsamlega og ógn geti stafað af.
Almennt má taka harða osta eins og parmesan, cheddar og prima donna í handfarangri. Mjúkir ostar eins og rjómaostur, smurostur og camembert teljast til vökva. Það gilda því sömu reglur um mjúka osta og aðra vökva og gel; hver eining má vera upp að 100ml og ber að setja í glæran rennilásapoka. Athugið að ekki er heimilt að fara með vökva í handfarangri sem keyptur er í verslunum eftir að farið er í gegnum öryggisskoðun í N-Ameríku og öðrum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins inn í flugstöð á Íslandi jafnvel þótt hann sé í innsigluðum umbúðum.
Lithíum rafhlöður mega einungis vera í handfarangri.
Líkt og með prjóna eru tjaldhælar ekki almennt bannaðir í handfarangri. Það er þó mismunandi eftir flugvöllum og ef um tengiflug er að ræða gætu farþegar með tjaldhæla eða aðra oddhvassa hluti fengið athugasemdir vegna þeirra. Flugverndarstarfsmönnum er heimilt, samkvæmt reglugerð, að gera athugasemdir og neita farþegum um að halda áfram með hluti sem þeir telja grunsamlega og ógn geti stafað af.