Yfir 650 þúsund gestir í apríl

Nóg var að gera á Keflavíkurflugvelli í apríl þegar 653.207 gestir lögðu leið sína um völlinn. Það gerir 17,5% aukningu frá apríl á síðasta ári og er á pari við farþegaspá flugvallarins.
Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hafa alls 2.163.475 gestir farið um Keflavíkurflugvöll. Í janúar voru gestir flugvallarins 469.059, febrúar 477.833 og mars 563.376. Áfram verður nóg að gera á Keflavíkurflugvelli í maí-ágúst og mun farþegafjöldinn fara vaxandi á næstu mánuðum.
Framboð áfangastaða heldur áfram að aukast á Keflavíkurflugvelli en alls flugu 24 flugfélög til 74 áfangastaða í apríl mánuði. Vinsælustu áfangastaðirnir voru London, Kaupmannahöfn, New York, París og Amsterdam.
.png&w=3840&q=80)
Mest var að gera á flugvellinum í apríl mánuði þann 17. apríl þegar 27.460 gestir fóru um Keflavíkurflugvöll.
Brottfarir Íslendinga voru 81 þúsund í apríl samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Það er 80% aukning frá apríl í fyrra en vinsælasta ferðahelgi Íslendinga, páskahátíðin, var í apríl í ár en í mars á síðasta ári.
Brottfarir erlendra gesta frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 146 þúsund. Það gerir 6,5% aukningu frá apríl árinu á undan. Flestar brottfarir voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna (22% af heildarbrottförum), Breta (14%), Kínverja (6%), Þjóðverja (6%) og Frakka (5%).
Farþegafjöldi mun aukast á næstu mánuðum en farþegaspá Keflavíkurflugvallar gerir ráð fyrir að yfir sumarmánuðina, apríl til október, muni 5,6 milljónir gesta leggja leið sína um völlinn.