Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

KEF tók á móti 8,1 milljón gesta árið 2025

Árið 2025 var fjórða stærsta ár KEF frá upphafi en alls tók samfélagið á flugvellinum á móti 8,1 milljón gesta, sem er 2% fækkun frá árinu á undan.

28 flug­fé­lög og 100 áfanga­stað­ir

Alls flugu 28 flugfélög frá Keflavíkurflugvelli til 100 áfangastaða og voru Lundúnir vinsælasti áfangastaður ársins. Vinsælasti flugvöllurinn var hins vegar Kastrup í Kaupmannahöfn.

Fall Play hafði áhrif

Gjaldþrot flugfélagsins Play hafði áhrif á fjölda gesta sem fóru um KEF í fyrra, en í upphaflegri farþegaspá fyrir árið 2025 var gert ráð fyrir 8,4 milljónum farþega. Hins vegar er áhugavert að ef spáin fyrir 2025 er borin saman við rauntölur ársins, en Play tekið út fyrir sviga, er um að ræða 5,3% fjölgun farþega milli ára.

Erlendir ferðamenn voru tæplega 2,3 milljónir í fyrra sem er 0,4% fækkun frá fyrra ári og 0,8% frá farþegaspánni. Hins vegar fóru ríflega 700 þúsund íslenskir farþegar um flugvöllinn, sem er 18% aukning frá fyrra ári og 18,6% frá farþegaspánni.

Tölu­verð fækk­un tengi­f­ar­þega

Tengifarþegar, þ.e. farþegar sem nýta KEF sem tengistöð án þess að dvelja á Íslandi, voru alls 2,2 milljónir, eða 27% af heildarfjölda farþega. Þetta er 14% fækkun tengifarþega frá árinu á undan, þegar tengifarþegar voru 31% af heildarfjölda gesta flugvallarins.

Vin­sæl­ustu áfanga­stað­irn­ir árið 2025

Í heildina flugu 28 flugfélög til 100 áfangastaða árið 2025. Lundúnir og Kaupmannahöfn voru langvinsælustu áfangastaðir síðasta árs, líkt og árin á undan.

London hefur þá sérstöðu að alls er flogið til fjögurra flugvalla við borgina frá KEF, Heathrow, Gatwick, Stansted og Luton. Sex flugfélög flugu milli London og KEF; British Airways, easyJet, Icelandair, Jet2.com, Play og TUI.

Sá flugvöllur sem var oftast flogið til og frá KEF var Kastrup-flugvöllur í Kaupmannahöfn. Alls flugu þrjú flugfélög þar á milli; Icelandair, Play og SAS.

Sextán nýir áfangastaðir bættust við á árinu og tvö ný flugfélög hófu flug til og frá KEF.

Flest flug í ág­úst

Mest var að gera á vellinum árið 2025 þann 3. ágúst en þá tók KEF á móti 36.694 gestum. Flest flug fóru hins vegar um völlinn nokkrum dögum síðar, þann 7. ágúst, eða 220 farþegaflug. Ágústbyrjun er greinilega sá tími árs þar sem flestr eru á ferðinni, því árið 2024 var það 4. ágúst sem flestir farþegar fóru um KEF.

Flest­ir gest­ir frá Banda­ríkj­un­um og Bret­landi

Samkvæmt talningu Ferðamálastofu fóru 2,25 milljónir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll í fyrra, sem er 0,4% fækkun frá árinu á undan. Sé litið til þróunar síðustu ára má sjá að fjöldinn hefur verið nánast sá sami undanfarin 3 ár, í kringum 2,2 milljónir. Það er álíka og 2017 en aðeins minna en metárið 2018 þegar brottfarir voru rúmlega 2,3  milljónir.

Langflestar brottfarir erlendra farþega voru í ágúst, eða 311 þúsund, en í sama mánuði árið á undan voru þær 281 þúsund.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir erlendra gesta, en brottfarir þeirra voru alls 654 þúsund, eða 29% allra brottfara. Fjölgaði þeim um 33 þúsund frá árinu á undan. Næst þar á eftir komu brottfarir breskra farþega, sem voru 233 þúsund, eða 10,3% af heild. Fækkaði breskum ferðamönnum um 33 þúsund á milli ára.

Met­ár í ferða­lög­um Ís­lend­inga

Brottfarir Íslendinga voru 709 þúsund árið 2025 sem er 18% aukning frá árinu 2024. Flestar brottfarir voru í apríl, þegar um 81 þúsund Íslendingar ferðuðust utan. Um er að stærsta ferðaár Íslendinga hvað varðar utanlandsferðir, og sló það því fyrra met frá árinu 2018, þegar brottfarir mældust um 668 þúsund.

Spá um far­þega­fjölda í ár

Ríflega 7,5 milljónir farþega munu ferðast um Keflavíkurflugvöll (KEF) árið 2026, þar af 2,24 milljónir erlendra ferðamanna, samkvæmt farþegaspá flugvallarins fyrir árið. Spáin gerir því ráð fyrir að heildarfarþegafjöldi dragist saman á milli ára, sem kemur einkum fram í fækkun tengifarþega og færri utanlandsferðum Íslendinga á árinu. Aftur á móti er gert ráð fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland standi nánast í stað og verði sambærilegur við undanfarin ár.