Heimsmarkmiðin kalla á okkur öll

UN Global Compact og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa að Fánadegi Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun þann 25. september. Þetta er í þriðja sinn sem fánadagurinn er haldinn hérlendis.
Tíu ár eru liðin frá því að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru samþykkt, alls 17 markmið sem eru leiðarvísir að betri heimi fyrir öll árið 2030. Til að sýna stuðning okkar við mikilvægi heimsmarkmiðanna, tökum við þátt í að flagga fána heimsmarkmiðanna á Keflavíkurflugvelli. Með samstilltu átaki getum við hraðað árangri og stuðlað að betri heimi fyrir öll.


Sjálfbærni leiðarljós í allri starfsemi
Keflavíkurflugvöllur hefur verið aðili að UN Global Compact frá árinu 2016. Með því skuldbindum við okkur til að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna er varða samfélagslega ábyrgð á sviði mannréttinda, vinnumála, umhverfismála og aðgerða gegn spillingu. Við vinnum einnig markvisst með Heimsmarkmiðin og leggjum áherslu á markmið 8 Góð atvinna og hagvöxtur, 9 Nýsköpun og uppbygging, 13 Aðgerðir í loftlagsmálum og 17 Samvinna um markmiðin.
Vikuna 25. september - 1. október verður í fyrsta sinn haldin Sjálfbærnivika í Reykjanes UNESCO jarðvangi. Vonast er til að Sjálfbærnivikan muni festast í sessi og verði árlegur viðburður héðan í frá, en markmiðið er að vekja athygli á ýmsu sem auðvelt er að breyta til þess að auka sjálfbærni í daglegu lífi okkar allra.

Markmið fánadagsins
Fánadagur Heimsmarkmiðanna er tækifæri til að minna okkur á að hvert einasta framtak skiptir máli. Með því að flagga fánanum sýnum við vilja til að vera hluti af lausninni, hvort sem við erum fyrirtæki, skóli eða stofnun. Með því að flagga fána Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna erum við að sýna samstöðu, vekja umræðu og hvetja til nýrra hugmynda sem styrkja vegferðina að betri heimi fyrir öll.

Um framtakið
United Nations Global Compact hefur frá árinu 2019 staðið fyrir fánadegi heimsmarkmiðanna. Vinsældir þessa framtaks hafa farið ört vaxandi um allan heim og sífellt fleiri flagga fánanum árlega. UN Global Compact á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa nú í þriðja sinn saman að deginum hér á landi.