Beint í efni
Keflavíkur Flugvöllur

Stundvísin aldrei mælst meiri á KEF en í sumar

Sumarið 2025 gekk vel á KEF. Stundvísi hefur aldrei mælst betri og öll tímamörk í öryggisleit og umferð um landamæri stóðust. Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar á Keflavíkurflugvelli, fjallaði um sumarið á KEF í Flugvarpinu.

„Stundvísi á Keflavíkurflugvelli hefur aldrei mælst meiri heldur en í sumar og í fyrrasumar gekk okkur líka mun betur heldur en áður,“ segir Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar á Keflavíkurflugvelli, í viðtali í nýjasta þætti Flugvarpsins. Mælingin snýr að brottfarar stundvísi eins og á öðrum flugvöllum.

Jóhannes Bjarni Guðmundsson, flugmaður og stjórnandi hlaðvarpsins, ræddi við Önnu Björk um þau fjölbreyttu verkefni sem eru á hennar könnu á KEF, þar á meðal brautarhreinsun og viðhald, turninn í Keflavík, öryggisleit, flugvernd og margs konar þjónustu við farþega.

Fram kom í þættinum að metumferð hefði verið um Keflavíkurflugvöll í júlí. Anna Björk sagði að sumarið hefði gengið vel. Yfirleitt hefði brottfarar stundvísi fallið nokkuð í júní þegar örtröðin byrjaði fyrir alvöru.

Það gerðist ekki í fyrra og við náðum að teygja þetta enn þá lengur fram í sumarið núna, þannig að við höfum aldrei séð eins góða stundvísi en í maí, júní og júlí í ár frá því sem við höfum mælingar um.

Anna Björk BjarnadóttirFramkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar á Keflavíkurflugvelli

Anna Björk segir að auk þess hafi KEF staðist öll tímamörk í sumar, bæði í öryggisleit og umferð um landamærin. Heilt yfir séu því stjórnendur og starfsfólk á flugvellinum hæstánægt með reksturinn þetta sumarið.

Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar á Keflavíkurflugvelli

Eins og að ryðja 140 fót­bolta­velli

Brautarþjónusta er eitt af verkefnum á sviði Önnu Bjarkar. Hún segir að allt verði tilbúið fyrir hreinsun brauta þegar komandi vetur gangi í garð.

Það verður allt tilbúið. Þetta hefur mikið breyst undanfarin ár. Við erum farin að undirbúa okkur gríðarlega vel undir þetta,“ segir Anna Björk og bætir við að nokkrir af færustu sérfræðingum landsins í veðri, vindum, skafrenningi og ofankomu starfi á Keflavíkurflugvelli. Þessir sérfræðingar séu vel að sér í því að meta hvernig t.d. snjór safnist upp og hreyfist á flugvellinum. Þeirra þekking sé mjög dýrmæt og vísindalegt hvernig brugðist sé við og hvernig brautir séu til dæmis afísaðar.

„Við höldum alltaf stóran fund snemma á haustin. Þá erum við búin að skipuleggja hvernig við vinnum. Við erum búin að staðla þetta miklu betur, þannig að við ákveðnar aðstæður þá vitum við nákvæmlega hvernig við ætlum að hreinsa, í hvaða röð,“ segir Anna Björk. „Þegar þú þarf að hreinsa allt brautarkerfið einu sinni þá ertu að ryðja 140 fótboltavelli af ofankomu. Þetta er svona eins og héðan og upp í Húsafell. Og það tekur sjö mínútur að ryðja eina flugbraut upp á þrjá kílómetra til þess að hún sé klár til lendingar. Þetta er vel undirbúið. Við erum virkilega tilbúin í veturinn.“

Jóhannes Bjarni og Anna Björk voru sammála um að mikilfenglegt væri að sjá plógana ryðja brautirnar. Ellefu plógar í einu eins og gæsir í oddaflugi.

„Þetta eru engin venjuleg tæki,“ segir Anna Björk. „Við erum með eigið verkstæði inn á vellinum vegna þess að þetta eru ekki tæki sem fara neitt utan vallar. Þú getur ekkert keyrt þetta á venjulegum vegum. Þau eru mjög sérhæfð. Þannig að við erum með stórt og öflugt verkstæði sem sér um viðhald á öllu þessu og er að undirbúa þetta allt sumarið þannig að þetta sé tilbúið fyrir veturinn við allar aðstæður.“

Viðtalið í heild sinni má heyra hér á vef Flugvarpsins og öllum helstu hlaðvarpsveitum.